Endurmeta stöðu sendiherra Rússlands á Íslandi

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir Utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir Utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra fordæmir fjöldamorð Rússa í Bútsja og segir að það væri óábyrgt af henni að halda því fram að Rússar hegði sér öðruvísi hérlendis heldur en í öðrum Evrópulöndum. Víðsvegar um Evrópu kemst upp um njósnir Rússa og aukið álag hefur orðið á netöryggisvarnir íslands eftir að stríðið hófst í Úkraínu. 

Fréttir hafa borist af því að því víðsvegar frá Evrópu að ríkisstjórnir annarra landa hafi vísað Rússum úr landi vegna tengsla sinna við Rússnesk stjórnvöld. Upp hefur komist um rússneska njósnara og heimildarmanna, meðal annars innan þýska hersins. 

„Ég tel óábyrgt að fullyrða að háttsemi rússneskra sendiráðsstarfsmanna annarstaðar geti undir engum kringumstæðum átt við hér. En annarstaðar eru fleiri starfsmenn og getan er meiri en við höfum hér til þess að fylgjast með slíku. Sömuleiðis væri óábyrgt að fullyrða að Rússar hegði sér öðruvísi hér en í nágrannaríkjum okkar,“ segir Þórdís um hegðun Rússa hérlendis. „Við vitum af auknu álagi á netöryggisvarnir okkar en engin „konkrít“ dæmi í þeim efnum.“

Rússar auka viðveru sína á norðurslóðum

Undanfarið hafa bæði Rússar og Atlantshafsbandalagið aukið viðveru sína á norðurslóðum. Þórdís segir að norðurslóðamálefni verði stór þáttur í utanríkisstefnu Íslands í náinni framtíð, bæði þegar kemur að öryggis- og varnarmálum annarsvegar og loftslagsverkefnum og samstarfsverkefnum norðurslóða hinsvegar. „Við þurfum að fylgjast með þróuninni og þegar við horfum á framgöngu Rússa annarstaðar. Þá er það eitthvað fyrir okkur til að hugsa um á ansi berskjölduðu norðurslóðasvæði.“

Ekki hægt að útiloka neitt

Stjórnvöld í Danmörku hafa nú rekið 15 rússneska leyniþjónustumenn úr landi. Áður höfðu Þjóðverjar greint frá því að þeir ætli að vísa 40 sendi­full­trú­um Rússa úr landi, Frakk­ar hafa vísað 35 rússnesk­um sendi­full­trú­um úr landi og Litháen vísaði sendiherra Rússlands úr landi í gær.

Þórdís Kolbrún hafði áður sagt að ekki stæði til að sendiherra Rússlands á Íslandi yrði sendur úr landi, en það sé nú verið að endurmeta stöðuna. „Litháen sendir sendiherra heim en slítur ekki stjórnmálasamstarfi við Rússa. Önnur ríki hafa sent fjölda starfsfólks heim, við erum með fáa starfsmenn og svari Rússland í sömu mynt erum við með óstarfhæft sendiráð í Moskvu. Við horfum á það sem önnur ríki í kringum okkur eru að gera og það er að þokast í eina átt svo við getum ekki útilokað neitt. En við fylgjumst áfram með þróun nágrannalanda og þurfum að vega og meta þetta sjálf frá okkur.“

Fordæmir fjöldamorðin í Bútsja

„Manni er nánast orðavant að sjá þessar myndir og fá upplýsingar af svæðinu. Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á meðferðina á saklausum borgurum. Núna er verið að afla sönnunargagna um það sem átti sér stað og ég geri þá kröfu til alþjóðasamfélagsins og okkar allra, að þau sem bera þarna ábyrgð verði sótt til saka og þurfi að svara fyrir þær ómennsku gjörðir sem þarna hafi átt sér stað,“ hafði Þórdís að segja um fjöldamorðin í Bútsja, smábæ rétt utan við Kænugarð, höfuðborg Úkraínu þar sem átök fara nú fram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert