„Allir séu á sömu blaðsíðu“

Erfiðar aðstæður voru til leitar í ísköldu Þingvallavatni eftir flugslysið …
Erfiðar aðstæður voru til leitar í ísköldu Þingvallavatni eftir flugslysið en fjarstýrður kafbátur var notaður í aðgerðunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fulltrúar frá rannsóknarnefnd samgönguslysa, Landhelgisgæslunni, sérsveit ríkislögreglustjóra og lögreglunni á Suðurlandi funda í dag vegna flugvélarinnar sem fórst í Þingvallavatni.

Að sögn Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurlandi, er enn dálítill ís í sunnanverðu vatninu þar sem vélin fórst. Um leið og veður leyfir verður ákveðið hvenær flakið verður híft upp úr vatninu. Hann kveðst nánast fullviss um að það gerist síðar í þessum mánuði.

„Við þurfum að horfa á veður og aðstæður. Við ætlum á fundinum að tryggja að allir séu á sömu blaðsíðu,“ segir Oddur.

Flugvélin, sem fórst í byrjun febrúar með fjóra karlmenn um borð, liggur á 48 metra dýpi í Ölfusvatnsvík.

Vonast er til að vélin verði sótt á einum degi en tveggja sólahringa gluggi verður nýttur ef það gengur ekki eftir.

„Þetta verður minna í sniðum heldur en var þegar við vorum að ná líkamsleifunum upp,“ segir Oddur um væntanlegar björgunaraðgerðir og nefnir að ekki þurfi eins mikinn búnað í þetta skiptið.

„Draumurinn er að hægt sé að gera þetta á einum degi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert