Gæti haft neikvæð áhrif á líðan nemenda

Hagaskóli.
Hagaskóli. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Stjórn foreldrafélags Hagaskóla segir ljóst að nokkur tími muni líða þar til allir nemendur í Hagaskóla geti fengið kennslu í húsnæði skólans en þar þurfti að ráðast í endurbætur vegna myglu. 

Um 2/3 hluti nemenda í Hagaskóla fær nú kennslu í húsnæði í Ármúla en um 1/3 er í hinum hefðbundnu húsakynnum Hagaskóla í vesturbæ Reykjavíkur. Er nemendum ekið fram og til baka í rútu en eins og gefur að skilja búa þeir í vesturbænum. Hagaskóli er gagnfræðiskóli og þar eru því nemendur í 8., 9. og 10. bekk. Þar eru yfir 600 nemendur. 

Í apríl var samþykkt í borgarráði að rífa tvær elstu álmur skólans og byggja nýtt. 

Stjórn foreldrafélagsins hefur sent frá sér ályktun vegna málsins. Þar segir að kennsla í húsnæði og umhverfi sem ekki er ætlað slíkri starfsemi, utan skólahverfis, er fallið til þess að raska skólastarfi og hafa neikvæð áhrif á nám og líðan nemenda.

„Stjórn foreldrafélags Hagaskóla fagnar því að borgarráð hafi í apríl samþykkt að leggja grunn að endurgerð og uppbyggingu Hagaskóla í kjölfar þess að mygla greindist í núverandi húsnæði sl. haust. Það er hins vegar ljóst að nokkur tími er í að eðlilegt skólastarf geti hafist í endurnýjuðu húsnæði. Mikilvægt er að á vegum Reykjvíkurborgar verði leitað allra til þess að undirbúningi og framkvæmdum verði hagað þannig að nemendur Hagaskóla geti sem allra fyrst aftur sótt skóla í sínu skólahverfi.

Þá er ljóst að kennsla í húsnæði og umhverfi sem ekki er ætlað slíkri starfsemi, utan skólahverfis, er fallið til þess að raska skólastarfi og hafa neikvæð áhrif á nám og líðan nemenda. Stjórn foreldrafélags Hagaskóla hvetur skólayfirvöld í Reykjavík til þess að standa þannig að málum að þessi neikvæðu áhrif verði lágmörkuð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert