Hönnuðu eigin hjólagrind fyrir rafmagnshjól

Hægt er að losa grindina og hreyfa á hjörulið til …
Hægt er að losa grindina og hreyfa á hjörulið til að komast að afturhlera bifreiðarinnar án þess að losa hjólin af grindinni. mbl.is/Árni Sæberg

Guðni A. Bridde er eins og margir aðrir áhugamaður um að fara í fjallahjólaferðir á rafmagnsfjallahjólum, en hann og faðir hans uppgötvuðu fljótlega vandamál þegar kemur að rafmagnshjólunum. Vegna aukinnar þyngdar var talsvert erfiðara að koma þeim upp á topp á bílnum og ef þau voru höfð á grind aftan á króknum var jafnan erfitt að komast í skott bílsins nema að taka hjólin af með tilheyrandi veseni. Í staðinn fyrir að láta þetta pirra sig gripu þeir til eigin ráða og smíðuðu sjálfir hjólagrind aftan á kúluna, en með hjörulið þannig að hægt er að taka hjólin á einfaldan hátt til hliðar ef athafna þarf sig við skottið.

Það er kannski ekki skrítið að þeir feðgar hafi farið þessa leið, enda starfa þeir við járn- og stálsmíði alla daga hjá Prófílstáli, sem jafnframt er fjölskyldufyrirtækið.

„Við höfum oft gert grindur og annað aftan í bíla fyrir mótorhjól og sáum að það vantaði grind til að vera með tvö alvöru rafmagnshjól og svo helst tjaldvagn aftan í, en samt að geta opnað afturhlerann,“ segir Guðni um þessa hugmynd. Bendir hann á að rafmagnshjól séu oft um 25 kg og því geti verið erfitt, sérstaklega fyrir einn, að henda hjólunum upp á topp.

Hugmyndin er í raun að setja prófíl aftan í bílinn með grindunum tveimur. Það virkar svo sem millistykki áfram þannig að hægt sé að festa þar tjaldvagn, fellihýsi eða annan slíkan vagn. Hann segir fyrstu útfærsluna þeirra hafa verið með tvö hjól, en að nokkuð auðvelt ætti að vera að bæta við plássi fyrir fleiri hjól.

Guðni og faðir hans hönnuðu og smíðuðu grindina.
Guðni og faðir hans hönnuðu og smíðuðu grindina. mbl.is/Árni Sæberg

Þeir feðgar kláruðu fyrstu grindina í kringum þann tíma sem eldgosið hófst í fyrra og fóru fyrsta túrinn að skoða eldgosið. Síðan þá hafa þeir sjálfir notað grindina umtalsvert, sem og selt fjölmargar. „Svo erum við búnir að smíða slatta fyrir sumarið, en þær eru reyndar flestar farnar,“ segir Guðni.

Hann segir markmiðið með grindinni einnig hafa verið að gera hana það sterka að allskonar hnjask í fjallaferðum ætti ekki að skemma neitt. „Úr varð þessi skemmtilega hugmynd. Hún er hugsuð sem sterkbyggð grind þannig að ekki þurfi að hafa áhyggjur af neinu.“

Að framan er hjólið fest niður með ströppum frá stýri og niður í augu sem eru til hliðar, en svo er annar strappi sem festir afturhjólið niður þannig að það hoppi ekki. „Þetta er gamli skólinn, en það virkar,“ segir Guðni, en hann segir festinguna byggða á sömu hugmynd og hefðbundnar mótorhjólafestingar.

Þessi grein birt­ist fyrst í Hjóla­blaði Morg­un­blaðsins sem kom út á laug­ar­dag­inn. Þar má finna fjöl­marg­ar grein­ar, ferðasög­ur og um­fjall­an­ir um mál­efni sem tengj­ast hjól­reiðum. Hægt er að nálg­ast blaðið í heild hér að neðan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »