Nemendur mótmæla nýjum skólameistara

Flensborgarskóli í Hafnarfirði
Flensborgarskóli í Hafnarfirði mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil óánægja er meðal nemenda Flensborgarskólans eftir að Erla Sigríður Ragnarsdóttir var skipuð skólameistari í gær. Hún hefur sinnt starfinu sem settur skólameistari. Þetta kemur fram í bréfi frá nýkjörnu nemendafélagi skólans til menntamálaráðuneytisins þar sem það lýsir yfir óánægju sinni.

Einnig hafa kennarar áður sent ályktun þar sem vinnubrögð skólastjóra eru gagnrýnd.

Þegar mbl.is náði tali af verðandi formanni nemendafélagsins staðfesti hann að stjórn nemendafélagsins hafi sent bréfið eftir þrýsting frá nemendum skólans. Á bak við bréfið standi allt nemendafélag skólans sem og leikhópur nemendasýningarinnar.

Segir hann að kennarar hafi margir viðrað óánægju sína við nemendur og að einnig hafi verið boðað til foreldrafundar eftir að ráðningin var staðfest.

Erla hefur starfað við skólann frá árinu 2002, bæði sem sviðsstjóri, mannauðsstjóri og aðstoðarskólameistari. Erla er móðir Millu Óskar Magnúsdóttur, fyrrverandi aðstoðarmanns Lilju Alfreðsdóttur þegar hún var menntamálaráðherra, en Lilja setti Erlu þá sem skólameistara.

Milla er ekki lengur aðstoðarmaður Lilju, en Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sá um skipunina núna eftir uppstokkun ráðuneyta eftir síðustu kosningar.

Ásmundur Einar er núverandi menntamálaráðherra en Lilja Dögg var það …
Ásmundur Einar er núverandi menntamálaráðherra en Lilja Dögg var það áður. mbl.is/Hólmfríður

Kennarar sendu ályktun

Í desember síðastliðnum barst ályktun kennarafélags Flensborgarskólans til menntamálaráðuneytisins og stjórnenda Flensborgarskólans þar sem kennarar lýstu áhyggjum af inngripi stjórnenda í námsmat nemenda eftir að námsmat hafi verið birt.

Taldi félagið að þar væru stjórnendur að takmarka sjálfstæði og traust til kennara.

Einnig höfðu kennarar áhyggjur af inngripi og breytingum skólastjóra á hinum ýmsu verkefnum þar sem kennurum höfðu verið fengin hlutverk en gripið hafi verið fyrir hendur þeirra. Eftir samráð við stjórnendur í kjölfarið taldi kennarafélagið málinu vera lokið.

Harðorður tölvupóstur frá nemendum

mbl.is hefur undir höndum tölvupóst sem nemendur sendu menntamálaráðuneytinu fyrir hönd nemendafélagsins. 

„Við nemendur Flensborgar (og kennarar) erum ótrúlega ósátt við að þið hafið ráðið gerendameðvirka manneskju sem skólameistara. Kennurum og nemendum líður almennt illa í Flensborg útaf Erlu,“ segir meðal annars í tölvupóstinum.

Í bréfinu er sagt að skólameistarinn „geri ekkert í ofbeldis og eineltismálum heldur hugsi einungis um ímynd skólans út á við og sé sama um það sem gerist innan skólans“.

Erla Sigríður Ragnarsdóttir.
Erla Sigríður Ragnarsdóttir. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Einnig kemur fram í bréfinu að leikstjórar og þjálfarar Gettu betur- og MORFÍs-liða skólans neiti að starfa fyrir nemendafélagið á meðan Erla sé skólastjóri sökum þess að skólastjórn styðji ekki við félagslíf nemenda og geri þeim viljandi erfitt fyrir.

Þetta hafi orðið til þess að erfitt sé að fá fólk til að starfa fyrir skólann, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á félagslífið.

„Hún er að rífa félagslífið niður sér til skemmtunar. Fólk þorir ekki að leita til hennar með neitt þar sem hún kennir þér um allt,“ segir einnig í harðorðu bréfinu.

Skora á ráðherra

„Við nemendur Flensborgarskólans skorum á ykkur að gera eitthvað í þessu svo nemendum og kennurum líði vel.“

Tekið er fram í bréfinu að settur verði saman frásagnar- og undirskriftarlisti sem mótmæli ráðningu hennar sem skólameistara.

Samkvæmt heimildum mbl.is eru nemendur einnig ósáttir við hvernig tekið hefur verið á eineltis- og ofbeldismálum innan skólans. En hópur drengja hefur þar ítrekað beitt samnemendur sína líkamlegu ofbeldi og finnst nemendum ekki að tekið sé nógu vel á málinu. 

Ósætti er einnig við að Erla hafi látið nemendur skólans, sem unnu við gerð leikmyndar fyrir sýningu leikfélagsins, sauma tjald til þess að nota við fermingu í óþökk leikstjóra sýningarinnar, með þeim afleiðingum að leikmyndin skemmdist. 

Uppfært: Í upprunalegri útgáfu fréttarinnar kom fram að bréf nemenda hefði verið sent af nemendafélagi skólans og það staðfest af formanni þess. Bréfið var hins vegar sent af verðandi stjórn nemendafélagsins og það staðfest af formanni þeirrar stjórnar. Hafði sú stjórn verið kosin stuttu áður, en kjörtímabil stjórna nær út skólaárið. Bréf kennara frá í desember hafði einnig verið sent á skólastjórnendur en ekki ráðuneytið, þó það sannarlega hafi ratað niður í ráðuneyti og ráðuneytið talið kennarafélagið hafa sent það, líkt og fram kemur í framhaldsfrétt. Í upprunalegri útgáfu sagði einnig að tjald hefði verið saumað fyrir fermingu vinkonu skólastjóra. Það er rangt, fermingin var ekki fyrir vinkonu.

mbl.is