„Öll stríð enda með friði“

Frá minningarathöfn rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar í dag.
Frá minningarathöfn rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rússneska rétttrúnaðarkirkjan stóð fyrir minningarathöfn í Fossvogskirkjugarði fyrir hádegi í dag. Þar komu safnaðarmeðlimir saman til að biðja og minnast þeirra sem létu lífið í seinni heimsstyrjöldinni.

Dagurinn í dag, sem Rússar kalla „Sigurdaginn“, er einn sá heilagasti í rússneskri sögu, að því er Anna Valdimarsdóttir, einn skipuleggjenda minningarathafnarinnar í Fossvogi, greinir frá í samtali við mbl.is.

Dagurinn táknrænn fyrir fleiri en bara Rússa

„Á þessum degi lauk seinni heimsstyrjöldinni sem var fyrir okkar þjóð endirinn á ættjarðarstríðinu mikla. Þegar ég segi okkar þjóð þá meina ég allir þeir sem eru frá fyrrum sovétríkjunum,“ segir Anna.

„Seinni heimsstyrjöldin snerti þjóðina alla og við lítum öll á endalok hennar sem sameiginlegan sigur okkar gagnvart nasisma,“ bætir hún við.

Á degi sem þessum er mikilvægt að líta til baka og skoða liðna atburði út frá sögulegu sjónarhorni, að sögn Önnu. Þegar það er gert megi sjá að dagurinn er táknrænn fyrir fleiri en bara Rússa.

„Ef við lítum til baka þá sjáum við að Ísland átti t.d. lykilþátt í sigri okkar í seinni heimsstyrjöldinni. Ísland var einskonar líflína sem tengdi bandamenn saman.

Hér í dag fögnum við sigri allra þessara þjóða og heiðrum minningu þeirra ungu manna sem fórnuðu lífi sínu í stríðinu svo við getum notið þess friðs sem við lifum við í dag.“

Anna Valdimarsdóttir, einn af skipuleggjendum minningarathafnarinnar.
Anna Valdimarsdóttir, einn af skipuleggjendum minningarathafnarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hissa yfir því hve fáir mættu til að mótmæla

Vanalega mæta um hundrað manns í Fossvogskirkjugarðinn til að halda upp á Sigurdaginn en heldur fámennara var á minningarathöfninni í ár. Þrátt fyrir það var lögreglan með talsverðan viðbúnað á svæðinu.

Óttuðust þið að fólk myndi mæta á viðburðinn til að mótmæla?

„Það eru ekki allir sem þekkja söguna. Margir hafa þurft að búa við mikið stress, í mjög sorglegum aðstæðum og eru ringlaðir vegna þess. Það fólk gæti misskilið þennan viðburð og það er afar leitt ef svo er en við vitum hvað þessi dagur þýðir.

Ég er eiginlega hissa að sjá hve fáir mættu til að mótmæla en það þýðir að fólk hefur lesið sig til. Það skilur hvaða þýðingu þessi dagur hefur fyrir alla Evrópu. Hann er tákn um von. Öll stríð eru af hinu slæma en þau enda öll með friði. Hið góða sigrar alltaf.“

Safnaðarmeðlimir minntust þeirra ungu manna sem létu lífið í seinni …
Safnaðarmeðlimir minntust þeirra ungu manna sem létu lífið í seinni heimsstyrjöldinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vonar að fólk finni frið í hjarta sínu á Íslandi

Til þeirra sem mögulega fordæma ákvörðun rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi um að halda minningarathöfnina í ljósi aðstæðna hefur Anna þetta að segja:

„Við hér á Íslandi finnum til með öllum þeim sem eru fórnarlömb stríðs. Allir innflytjendur eru flóttamenn að einhverju leyti. Okkar eigin hörmungar hófust fyrir um 30 árum þegar Sovétríkin hrundu en síðan þá höfum við sest víða að.

Við skiljum hvað það getur verið erfitt að flýja frá heimalandi sínu til Íslands með aleiguna í einni ferðatösku því sum okkar hafa upplifað það sjálf. Við skiljum og vonum bara að fólk finni frið í hjarta sínu hér.“

mbl.is