„Fáránlegt að færa einu trúfélagi þetta hlutverk“

Matthías Ásgeirsson.
Matthías Ásgeirsson. Ljósmynd/Aðsend

Matthías Ásgeirsson, formaður félagsins Vantrúar, segir það gjörsamlega fáránlegt að einu trúfélagi sé fært það hlutverk að veita aðstandendum fanga stuðning. Vísar Matthías þá til 10 milljón króna styrks sem Þjóðkirkjan hlaut í gær frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti. Mbl.is ræddi við Matthías í dag.

Matthías skrifaði færslu í gær á Facebook-aðgangi Vantrúar, þar sem hann gagnrýndi styrkinn töluvert. Er það að mati Matthíasar í rauninni tilgangslaust að veita Þjóðkirkjunni þennan styrk, þar sem þetta eigi nú þegar að vera hluti af þjónustu kirkjunnar. 

Þeir aðstandendur fanga sem nú þegar eru í Þjóðkirkjunni eiga auðvitað að geta leitað til hennar eftir stuðningi og áfallahjálp. Þannig réttlætir hún meðal annars tilvist sína, sóknargjöldin og annan fjárhagslegan stuðning frá skattgreiðendum,“ segir Matthías í Facebook-færslu sinni. 

Bætir Matthías við að þeir sem séu í öðrum trúarfélögum geti sótt stuðning þangað líka ef þau vilja. Biðlar Matthías þá til ríkisins að styðja fólk óháð lífsskoðunum og þeim trúarbrögðum sem það aðhyllist. 

„Eftir stendur að hið opinbera á að styðja fólk óháð trúarskoðunum og trúfélagsaðild. Nógu miklu fé er veitt til Þjóðkirkjunar, þótt þetta bætist ekki við.“

Íslendingar ekki mjög trúaðir

Bendir Matthías á í samtali við mbl.is að um 60 prósent landsmanna tilheyri Þjóðkirkjunni og að fæstir hafi skráð sig í hana sjálfir. Að hans mati eru Íslendingar þar að auki ekki mjög trúaðir. 

„Þetta breytir því ekki að Íslendingar eru ekki mjög trúaðir og því gjörsamlega fáránlegt að færa einu trúfélagi þetta hlutverk," segir Matthías og bætir við að honum finnist það sama um presta á sjúkrahúsum.

Finnst Matthíasi nóg gert fyrir Þjóðkirkjuna og því þurfi ekki að bæta þessu við. „Okkur í Vantrú finnst alveg nóg að ríkiskirkjan fái milljarða á hverju ári í formi sóknargjalda, sem kirkjan lýgur að séu innheimt félagsgjöld, og samningsgreiðslur út af kirkjujörðum sem er búið að margborga kirkjunni fyrir. Það er beinlínis skandall að ráðherra ákveði nú að styrkja félag um enn hærri fjárhæðir,“ segir Matthías og vísar til Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra.

Finnst Matthíasi engu skipta að starfið skuli vera jákvætt. Að hans mati felst í því trúboð sem hann telur helsta tilgang kirkjunnar. 

Vefritið Vantrú.
Vefritið Vantrú. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is