Ekki nóg að opna bara faðminn

Öflug kynningarmál eru lykilatriði, bæði út á við og inn …
Öflug kynningarmál eru lykilatriði, bæði út á við og inn á við. Allir þurfa að þekkja sitt hlutverk og veita einstakligsmiðaða aðstoð. mbl.is/Óttar

„Það er ekki nóg að opna bara faðminn, við verðum að sækja þessa einstaklinga,“ sagði Jóhannes Guðlaugsson, verkefnastjóri þjónustumiðstöðvar Breiðholts, á málþingi um þátttöku barna af erlendum uppruna í skipulögðu íþróttastarfi. 

Hann hefur að undanförnu stýrt verkefninu „Frístundir í Breiðholti“ þar sem markmiðið er að ná fram aukinni þátttöku, félagslegri virkni og samtvinningu íslenskrar tungu inn í frístundastarfið. 

Ráðist hefur verið til ýmissa aðgerða, svo sem að koma upp kerfi þar sem einfalt gjald nægir til þess að börnin geti flakkað á milli íþróttagreina innan íþróttafélagsins, og fundið sér grein við sitt hæfi.

Þá hefur Jóhannes lagt áherslu á að frístundastarfsemi barna í 1. til 2. bekk, eigi sér stað milli klukkan 14 og 18 á daginn. Loks hefur verið tryggð endurgjaldslaus frístundarúta til þess að koma börnunum milli staða. 

Öflug kynningarmál eru lykilatriði í hans huga. Bæði þarf að ná til barnanna, foreldranna, en einnig til annarra umsjónaraðila, svo sem kennara, sem verði að átta sig á sínu hlutverki. Kennarar þurfi að koma auga á hvaða börn taki ekki þátt í nokkurri skipulegri íþróttaiðkun. 

Í umræddu verkefni sinnir Jóhannes hlutverki frístundatengils. Hann veitir þannig aðstoð við skráningu, að bæta úrvalið og tryggja tengingu við fólk af erlendum uppruna. 

Sendiherrar brúa bilið

Svokallaðir sendiherrar Breiðholts, er fólk sem Jóhannes hefur fengið til þess að brúa bilið milli kerfisins og innflytjenda.

María Sastre er einn af umræddum sendiherrum og hún útskýrði hlutverk sitt á málþinginu. 

„Við erum innflytjendur sem getum talað íslensku. Við erum með gott tengslanet við aðra innflytjendur sem tala okkar móðurmál. Okkar hlutverk er að brúa bilið milli ólíkra þjóða og menningarheima í hverfinu,“ sagði hún.

Markús Máni ræddi við blaðamann að Málþinginu loknu.
Markús Máni ræddi við blaðamann að Málþinginu loknu. mbl.is/Hákon Pálsson

Frábær stökkpallur

Markús Máni M. Maute, stofnandi og framkvæmdastjóri Sportabler, var fundarstjóri á málþinginu. 

Hann flutti sjálfur til Íslands frá Þýskalandi sex ára gamall, ásamt einstæðri móður sinni. Þau áttu lítið sem ekkert tengslanet hér á landi á þeim tíma.

„Svo varð ég svo lánsamur að komast inn í gott íþróttafélag þar sem þjálfararnir voru einskonar föðurímyndir og ég fann fyrir umhyggju frá foreldrum liðsfélaga minna og þetta var bara mitt félagslega og tilfinningalega skjól,“ sagði hann. 

Það hafi verið gott að finna fyrir því að vera hluti af heild. 

„Þetta er eitthvað sem klárlega mótaði mig á mínum uppvaxtarárum og er frábær stökkpallur fyrir krakka af erlendum uppruna.“

mbl.is