Fékk formlegt tiltal biskups fyrir „harkaleg“ skrif

Séra Davíð Þór Jónsson, sóknarprestur í Lauganeskirkju.
Séra Davíð Þór Jónsson, sóknarprestur í Lauganeskirkju. mbl.is/Kristinn Magnússon

Biskup Íslands hefur veitt séra Davíð Þór Jónssyni formlegt tiltal vegna „harkalegra“ og „ósmekklegra“ skrifa sem hann viðhafði á Facebook-síðu sinni í gær. Er þá vísað til ummæla hans um ríkisstjórnarflokkinn Vinstri græn og áforma stjórnvalda um að vísa 300 flóttamönnum úr landi. Sagði hann sérstakan stað í helvíti fyrir fólk sem selur sál sína fyrir völd og vegtyllur.

Hörð viðbrögð prestsins vöktu ekki mikla lukku meðal embættismanna þjóðkirkjunnar en í yfirlýsingu frá biskupi Íslands kemur fram að prestum beri að haga málflutningi sínum málefnalega og meiða ekki með orðum. Í ljósi þess var séra Davíð veitt formlegt tiltal. Telst málinu nú lokið af hálfu biskups.

Tekið er fram að biskup hefur gagnrýnt áform íslenskra yfirvalda um fyrirhugaðar fjöldabrottvísanir hælisleitenda sem fest hafa rætur hér á landi. Kallar biskup eftir mannúð og mildi þegar kemur að málefnum hælisleitenda.

mbl.is