Litlar tekjur af nýtingu þjóðlendna

Við Dettifoss. Jökulsárgljúfur eru hluti af Vatnajökulsþjóðgarði.
Við Dettifoss. Jökulsárgljúfur eru hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Tekjur sveitarfélaga, þar sem þjóðlendur er að finna, af nýtingu lands og landsréttinda innan þjóðlendna námu samtals rúmlega 20 milljónum króna á síðasta ári.

Þá hafði Vatnajökulsþjóðgarður 25 þúsund krónur í tekjur af nýtingu lands og landsréttinda innan þjóðlendna.

Þetta kemur fram í skýrslu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, sem lögð var fram á Alþingi í gær.

Þjóðlendur er að finna í 38 sveitarfélögum og óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá þeim um þær tekjur sem þau höfðu af nýtingu þeirra á árinu 2021. Jafnframt var óskað eftir upplýsingum um ráðstöfun þeirra tekna af nýtingu lands og landsréttinda innan þjóðlendna, sem sveitarfélög öfluðu á árinu.

Af sveitarfélögunum svöruðu 34 þeirra fyrirspurninni, eða hartnær 89%. Alls höfðu 26 sveitarfélög engar tekjur af nýtingu lands innan þjóðlendna á árinu 2021, eða um 76%. Þá höfðu átta sveitarfélög tekjur innan þjóðlendna í einhverju formi, eða 23,5%.

Fjögur sveitarfélög svöruðu ekki fyrirspurn ráðuneytisins, þ.e. Sveitarfélagið Ölfus, Rangárþing ytra, Húnaþing vestra og Akrahreppur.

Tekjur innan þjóðlendna eru mismiklar milli sveitarfélaga, allt frá rúmum 35 þúsund krónum í Sveitarfélaginu Skagafirði í rúmar 8,2 milljónir króna í Ásahreppi. Tekjum af nýtingu lands og landsréttinda innan þjóðlendna virðist að mestu leyti varið til endurbóta, umsjónar eða eftirlits innan þjóðlendna.

Færst hefur í vöxt að sveitarfélög geri samninga um nýtingu lands og landsréttinda innan þjóðlendna í samráði við og með samþykki ráðuneytisins. Er þar einkum um að ræða skála og aðstöðu vegna áforma um uppbyggingu í tengslum við aukna ferðaþjónustu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert