Þóra Birna Ingvarsdóttir
Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður Ingólfs Þórarinssonar í nýloknu meiðyrðamáli gegn Sindra Þór Sigríðarsyni, segist varla hafa fest svefn í nótt eftir dómsuppkvaðningu gærdagsins þar sem Sindri var sýknaður af öllum kröfum Ingólfs.
Aðspurð, hvort tekin hafi verið ákvörðun um áfrýjun til Landsréttar, segist Auður ætla að leggja hart að Ingólfi, betur þekktum sem Ingó veðurguð, að áfrýja málinu.
„Þetta er kolröng niðurstaða.“ Auður kveðst aldrei hafa fengið jafnmikil viðbrögð frá lögfræðisamfélaginu, líkt og nú í kjölfar þessa dóms.
„Ég hef fengið marga tölvupósta um það hversu galinn þessi dómur er og fólk að skora á mann að áfrýja. Þetta meiðir mjög réttlætiskennd margra lögfræðinga og er klárlega ekki fordæmisgefandi.“
Ingó fékk gjafsókn í máli sínu fyrir héraðsdómi en Auður segir það ekki úrslitaatriði vegna mögulegrar áfrýjunar, hvort gjafsókn fáist eða ekki.
Hefur komið til skoðunar að höfða frekar mál gegn þeim sem standa að baki frásögnunum sem Sindri byggir ummæli sín á?
„Jájá það kemur líka alveg til skoðunar. Ég veit ekki hvað hann nennir, hann veit náttúrulega ekki hverjir þetta eru og lögregla hefur ekki viljað veita aðstoð sína svo það er erfitt að höfða mál gegn einhverjum sem þú veist ekki hver er. Svo fer það eftir ummælunum og hvernig þau eru sett fram.“