Skelkaðir foreldrar eftir að loft lak úr hoppukastala

Um er að ræða hoppukastala fyrir börn yngri en sex …
Um er að ræða hoppukastala fyrir börn yngri en sex ára. Árni Torfason

Loft tæmdist úr einum hoppukastala Skátalands í Hljómskálagarðinum í dag. Um er að ræða hoppukastala fyrir börn yngri en sex ára og viðstaddir foreldrar urðu því skelkaðir. 

Jón Andri Helgason, framkvæmdastjóri Skátalands, segir engan hafa verið í hættu, en rafmagnið hafi slegið út og viftan hætt að ganga, og því hafi loftið tekið að leka úr hoppukastalanum. 

„Við erum með starfsmann sem fylgist með kastalanum og svo er fólk fastráðið í því að hlaupa til ef eitthvað svona kemur upp á.“

Rafmagninu var komið á aftur á svipstundu, án þess að loftið tæmdist alveg úr hoppukastalanum. „Það tekur smá tíma fyrir svona kastala að tæmast.“

Blómatíð hoppukastala

Jón Andri segir að sjaldan hafi verið jafn mikil aðsókn í hoppukastalana og nú í ár. Skátaland hefur sett upp fleiri en tíu hoppukastala í Hljómskálagarðinum. Eru hoppukastalarnir notaðir sem fjáröflun fyrir unga skáta og því mörg ungmenni að hjálpa til. 

Hópslys varð fyrir ári síðan þegar risavaxinn hoppukastali tókst á loft á Akureyri og skall svo aftur til jarðar. Ung stelpa slasaðist alvarlega við það og hefur verið í endurhæfingu síðastliðið ár. 

Jón Andri segir það hafa verið víti til varnaðar og Skátaland leggi mikið upp úr því að tryggja festingar sinna hoppukastala. Þá sé starfsfólkið einnig vel þjálfað áður en það er látið bera ábyrgð á hoppuköstulunum. 

Slysið hefur ekki haft neinn fælingarmátt í för með sér, en Jón Andri lýsir síðustu vikum sem blómatíð í útleigu hoppukastala í Reykjavík. „Það hafa aldrei verið jafn margir hoppukastalar í útleigu og þetta sumar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert