Hoppukastalaslysið á ákærustig

Hópslys varð á Akureyri síðasta sumar þegar hoppukastalinn, Skrímslið, tók …
Hópslys varð á Akureyri síðasta sumar þegar hoppukastalinn, Skrímslið, tók á loft.

Rannsókn vegna hópslyssins sem varð af því að hoppukastali tók á loft á Akureyri síðasta sumar, er á lokastigi og málið komið á ákærustig. Þessi kaflaskil urðu í morgun.

Eyþór Þorbergsson, aðstoðarsaksóknari og staðgengill lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, segir að nú verði óskað eftir matsgerð frá sérfræðingum. 

„Við þurfum að fá einhvern verkfræðimenntaðan til að meta möguleg áhrif veðurs og hvernig festingarnar losnuðu.“

Ljóst sé að hoppukastali, sem eigi að vera fastur en losni í vindi, hafi ekki verið nægilega fastur. „Hver á að bera ábyrgð á því er svo okkar höfuðverkur, en við erum ekki búin að leysa úr því á þessu stigi.“

Á ákærustigi verður einnig tekin ákvörðun um hvort gefin verði út ákæra, málinu lokið með sektarboði eða það fellt niður. Rúv greindi fyrst frá.

Sum mál hafi gott af því að eldast

Rannsókn málsins hefur staðið yfir í heilt ár. Eyþór segir það ekki vera langan tíma fyrir mál af þessu tagi, þar sem enginn sæti gæsluvarðhaldi. 

Eyþór bendir á að fjölmörg vitni hafi verið að atvikinu. Við rannsóknina hafi þurft að yfirheyra vitni og sakborninga, panta vottorð og bíða eftir að heilsufar stúlkunnar, sem flutt var með sjúkraflugi til Reykjavíkur, næði stöðugleikapunkti. 

„Svo hafa sum mál líka gott af því að eldast, eins og þetta, stundum er ekki sniðugt að rannsaka mál þegar umræðan stendur sem hæst.“

Hann á þó von á því að meðferð málsins á ákærustigi muni taka styttri tíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert