Óþægilegt að vera fastur um borð „í þessum dalli“

Farþegar hafa verið í ferjunni frá klukkan níu í morgun.
Farþegar hafa verið í ferjunni frá klukkan níu í morgun. Ljósmynd/Sigurður Viggósson

„Við erum bara hér rétt fyrir utan höfnina í Stykkishólmi og höfum nú beðið um borð í tæpa fjóra og hálfan tíma,“ segir Sig­urður Viggós­son fram­kvæmda­stjóri í samtali við mbl.is en hann er um borð í Baldri sem var nýfarinn úr höfn klukkan níu í morgun er bilun kom upp í gír skipsins.

102 farþegar eru um borð og segir hann stemninguna ekki góða en sem betur fer sé blíðviðri. 

„Það er aðeins farið að vinda núna en annars hefur verið liggur við logn og sól.“

Sigurður Viggósson framkvæmdastjóri.
Sigurður Viggósson framkvæmdastjóri. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Fyrst átti að ferja farþegana um borð í skipið Særúnu og fara með þá aftur til Stykkishólms en nokkru síðar var hætt við þá ákvörðun og ákveðið að sigla með þá um borð í Baldri.

Nú er verið að losa akkeri skipsins en Sigurður segir upplýsingaflæði til farþeganna ekki hafa verið upp á það besta. 

„Það koma fréttir á hálftíma fresti en þetta er nú samt bara tóma ruglið. Menn eru að reyna að láta fara vel um sig en það er ekkert þægilegt að hanga hér úti á Breiðafirði í þessum dalli. Við vitum ekkert hvað er að gerast í þessu ef ég segi alveg eins og er.“

Þyrla Landhelgisgæslunnar flýgur yfir Baldri.
Þyrla Landhelgisgæslunnar flýgur yfir Baldri. Ljósmynd/Sigurður Viggósson

Hafa varað við skipinu frá upphafi

Sigurður er formaður Samtaka atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum (SASV) og nefnir að stærsta verkefni samtakanna hafi alltaf verið samgöngur, og þar sé Baldur meðal annars mjög mikilvægur.

„Við erum búin að vara við þessu skipi alveg frá upphafi. Ég persónulega hef ekki farið um borð í þennan bát í tvö ár og fer aldrei um borð í hann nema með algjörri undantekningu. Þetta er ekki mjög vænn bátur, hvorki fyrir farþega né flutninga,“ segir hann og bætir við að hann muni forðast ferjuna áfram.

Sigurður segist ekki vera sjóhræddur en það sé óþægilegt að vera fastur um borð í „þessum dalli“.

Hægagangur í björgunaraðgerðum

Hann segir að er ferjan kemst aftur til Stykkishólms muni hann keyra fyrir Breiðafjörðinn en Sigurður býr á Patreksfirði.

Það stefnir því í langan dag?

„Já, þetta verður langur dagur en það er allavega heppni að það skuli vera gott veður. Ég hefði ekki verið til í að þetta væri eins og í vetur,“ segir Sigurður og vísar til þess er Baldur varð vélarvana svo og ferj­an og farþegar og áhöfn máttu dúsa um borð í skip­inu í 27 klukku­stund­ir.

Sigurður segir að lokum að voðalegur hægagangur sé í björgunaraðgerðum og farþegar skilji ekki neitt í neinu. 

„Þetta er grafalvarleg staða og við erum búin að vera að berjast fyrir því mjög lengi að fá almennilega ferju. Í staðinn eignumst við alltaf einhverja eldgamla dalla sem sigla hérna yfir Breiðafjörðinn.“

Stutt er til Stykkishólms.
Stutt er til Stykkishólms. Ljósmynd/Sigurður Viggósson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert