Fluginu aflýst 10 mínútum fyrir brottför

Einar Baldvin Brimar, laganemi, athafnamaður og frumkvöðull, og Saga Rún …
Einar Baldvin Brimar, laganemi, athafnamaður og frumkvöðull, og Saga Rún Vilhjálmsdóttir, félagsráðgjafanemi nutu lífsins í Póllandi í helgarferð sem varð svo að vikuferð. Ljósmynd/Aðsend

Einar Baldvin Brimar, laganemi, athafnamaður og frumkvöðull, og Saga Rún Vilhjálmsdóttir, félagsráðgjafanemi lentu í því óheppilega tilviki að fluginu þeirra var aflýst á meðan þau voru á leið með flugskutlu á flugvellinum að flugvélinni. Þá voru tíu mínútur í að flugvélin átti að takast á loft en þau höfðu keypt flug með ungverska flugfélaginu Wizz Air.

Voru þau þá búin að, innrita sig í flugið, fara í gegnum öryggisleit og bíða í nokkrar klukkustundir á vellinum áður en fluginu var að lokum aflýst án nokkurs fyrirvara. 

Einar Baldvin segir samt að lífið gæti verið talsvert verra þrátt fyrir að vera núna strangaglópar í Póllandi. Þau fengu flug hjá Wizz á morgun og verða því tveim dögum lengur en þau ætluðu sér í Póllandi. „Stutta helgarferðin varð allt í einu bara að vikuferð,“ segir Einar kíminn.

Dyrnar opnuðust ekki

Að sögn Einars bjuggust þau aldrei við því að þetta myndi fara svona enda var stutt í flugið. „Við vorum í rútunni fyrir framan flugvélina bara að bíða eftir að fá að fara um borð en dyrnar bara opnuðust ekki. Síðan lagði allt í einu bílstjórinn af stað aftur til baka án þess að segja neitt.“

Segir Einar að stuttu seinna hafi útskýring borist í hátalarakerfinu en að hún hafi verið á pólsku og því gerði hún ekki mikið gagn fyrir hann og aðra Íslendinga í rútunni. „Allir Pólverjarnir trylltust þá en við vissum ekkert hvað var að gerast,“ bætir Einar við. Síðar komust þau að því að um einhverskonar tæknilegan galla hafi verið að ræða.

Hófst þá ferli við að fá flugið fært og að sögn Einars tók það sinn tíma. Segist hann þó feginn að hafa fengið flug tveimur dögum seinna en ekki fjórum eða fimm eins og sumir íslenskir farþegar.

Segir hann þó að þau hafi fengið góðar sárabætur frá Wizz og dvelja nú á Hilton hóteli í Póllandi í boði flugfélagsins sem að sögn Einars sé talsvert dýrara en það sem þau borguðu upprunalega fyrir flugið til Póllands.

mbl.is