Tjáir sig í fyrsta skipti um atvikið á Prikinu

Skjáskot úr myndskeiði af atvikinu.
Skjáskot úr myndskeiði af atvikinu.

„Ég hélt þetta væri bara í gamni – svo var það það ekki,“ hefur bandaríska tímaritið Variety eftir konunni sem bandaríski Hollywood-leikarinn Ezra Miller tók hálstaki á skemmtistaðnum Prikinu í Reykjavík á vordögum ársins 2020, en konan hefur nú opnað sig nafnlaust um atvikið.

„Allt í einu er [hán] ofan á mér að kyrkja mig ennþá öskrandi hvort ég vilji slást. Vinur minn sem tók atvikið upp sér að [hán] er augljóslega ekki að grínast og er að segja þetta í fúlustu alvöru,“ segir hún um atvikið en líklegt er að hún hafi ekki vitað að Miller skilgreindi sig sem kvár á þeim tíma sem viðtalið er tekið, sem var stuttu eftir atvikið.

Vinur konunnar hætti að taka upp og hjálpaði henni að ná Miller af sér ásamt öðrum vini þeirra. Miller hafi hrækt framan í vin hennar, sem henni þótti tillitslaust og jafnvel hættulegt sökum stöðu heimsfaraldursins í byrjun apríl 2020.

Myndskeið náðist af atvikinu sem síðan þá hefur farið víða um netið:

Leikarinn og spéfuglinn Vilhelm Neto varð vitni að atvikinu og tísti um það samdægurs:

Fastagestur á Prikinu um árabil

Í umfjöllun Variety er ítarlega farið yfir þá óviðeigandi háttsemi sem Miller hefur verið uppvís að bæði hér á landi sem og annars staðar í heiminum, síðustu tvö ár.

Þar er meðal annars rætt við tvo Íslendinga – áðurnefnda konu og barþjóninn Carlos Reyni. Bæði könnuðust vel við leikarann, sem hafði verið fastagestur á Prikinu um árabil.

„Gæti unnið þig í slag“

Konan hafði talað við Miller um fætur leikarans sem voru berir í sandölum og bent á ör sem voru sýnileg. Miller sagðist hafa öðlast örin í slagsmálum. Eftir stutt spjall hafi konan gengið í burtu en snúið við og sagt í gríni: „Svo það sé á hreinu þá gæti ég unnið þig í slag.“

Miller svaraði um hæl og ákváðu þau að hittast á reykingasvæðinu að tveimur mínútum liðnum með áðurnefndum afleiðingum.

Carlos Reynir, barþjónn Priksins, lýsti öðru svipuðu sem átti sér stað á Prikinu stuttu fyrir hitt atvikið. Þar segir Carlos hann hafa tekið mann hálstaki og slegið hann utan undir. Háni var aftur á móti leyft að halda áfram að sækja staðinn eftir það atvik.

„Það var alltaf eitthvað með Ezra,“ segir Carlos.

Miller hætti aftur á móti að koma á staðinn eftir seinna atvikið, þegar hann tók konuna hálstaki.

„Hán hætti að koma á aðra skemmtistaði stuttu síðar,“ er haft eftir Carlosi, sem þótti merkilegt hversu fljótt Miller snerist gegn íslenskum kunningjum sínum.

„Mér fannst hán frábær til að byrja með,“ sagði Carlos. „Hán hafði þessa grímu sem algjört yndi með opinn hug gagnvart hverjum sem er. En um leið og einhver gerir eitthvað sem hán er ekki sammála, er það einhverjum öðrum að kenna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert