„Sorglegt“ að málið sé komið á þennan stað

Horft af Vatnsendahvarfi, þar sem leggja á hraðbraut, yfir höfuðborgina.
Horft af Vatnsendahvarfi, þar sem leggja á hraðbraut, yfir höfuðborgina. Ljósmynd/Helga Kristín Gunnarsdóttir

Deiliskipulag Vatnsendahvarfs verður lagt fyrir borgarráð á morgun. Að sögn talsmanns Náttúruvina Reykjavíkur og Vina Vatnsendahvarfs eru allar líkur á að það verði samþykkt. Hún segir það sorglegt að málið sé komið á þennan stað.

„Miðað við það að þetta var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði þá eru allir líkur á því að deiluskipulagið verði samþykkt í borgarráði líka,“ segir Helga Kristín Gunnarsdóttir í samtali við mbl.is.

Það kemur Helgu í rauninni ekki á óvart að málið sé komið svona langt. „Afstaða borgarinnar hefur alltaf verið að keyra bara beint áfram og hlusta ekki á athugasemdir íbúa og taka ekki tillit til þeirra.“

20 ára gamalt umhverfismat

Þá bætir hún við að þetta séu veruleg vonbrigði, sérstaklega í ljósi þess að notast er við 20 ára gamalt umhverfismat.

Helga segir að fyrirhugað sé að framkvæmdir hefjist í haust og að Vegagerðin sjái um framkvæmdina með fjármagni frá ríkinu.

Hún bendir þó á að það hafi verið bókun frá meirihlutanum á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs þar sem lögð var mikil áhersla á að fjármagn fyrir áætluðum vistlokum yrði einnig komið áður en framkvæmdir hæfust.

„En fjármögnun fyrir það er alfarið í höndum Kópavogsbæjar, svo það verður áhugavert að sjá hvernig það spilast út,“ bætir Helga við.

Kostnaður farinn að nálgast sjö milljarða

Hún bendir á að fyrir þremur árum var áætlað að vegurinn myndi kosta 4,5 milljarða og að hvort vistlokið um sig væri á 900 milljónir. Heildarkostnaðurinn af veginum er því líklega farinn að nálgast sjö milljarða.

„Þau vildu alls ekki skoða það að leggja veginn í stokk eða göng því kostnaðurinn er svo mikill, en til samanburðar kostuðu Dýrafjarðargöng sem eru 5,6 kílómetrar innan við 10 milljarða. Mér finnst svo sérstakt að það skuli ekki vera neinn vilji til að staldra við og skoða hvort það sé hægt að gera þetta eitthvað betur.“

Þá segir Helga Framsókn engu hafa svarað en í færslu á Facebook-hóp íbúasamtakanna Vina Vatnsendahvarfs fyrir viku síðan sagði hún Framsókn hafa svikið kosningaloforð þegar deiliskipulagið var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur. Þorvaldur Daníelsson varaborgarfulltrúi hafi verið staðfastur á því að Framsókn myndi ekki samþykkja Arnarnesveg í núverandi mynd.

Ekki öll von úti

Hún bætir við að ef deiliskipulagið verði samþykkt þá muni þau kæra niðurstöðuna.

„Þetta er ekki alveg búið,“ segir hún en bendir á að síðast hafi kæran ekki verið tekin efnislega fyrir því íbúar sem búa í nágrenni við framkvæmdina voru ekki taldir eiga hagsmuna að gæta. Þau ætli sér þó að leggja allan þunga á þetta.

„Það er ekki öll von úti. En það er leiðinlegt að þetta þurfi að ganga svona langt í staðinn fyrir að fólk setjist niður og finni bestu lausnina fyrir alla,“ segir Helga að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert