Hitti fólkið þar sem aðrir heyrðu ekki til

„Pólitíska staðan fór versnandi gagnvart þeim sem minnihlutahóp,“ segir Anastasía …
„Pólitíska staðan fór versnandi gagnvart þeim sem minnihlutahóp,“ segir Anastasía um stöðu hinsegin fólks eftir að rússneskar hersveitir réðust inn í Úkraínu. Samsett mynd/AFP/Oscar Del Pozo

Anastasía Jónsdóttir var meðvituð um að ræða rannsóknarefni meistararitgerðar sinnar í mannréttindafræðum ekki við hvern sem er. Hún ferðaðist til Rússlands til þess að vinna að rannsókn sinni og dvaldi þar skömmu áður en innrás rússneskra hersveita í Úkraínu hófst. Viðfangsefni ritgerðarinnar er eldfimt í Rússlandi.  

Anastasía stundaði nám við Sciences Po háskólann í París, höfuðborg Frakklands. Hún útskrifaðist með meistaragráðu þaðan í mannréttindafræðum í vor. Meistararitgerð Anastasíu, sem á rússneska móður og íslenskan föður, fjallaði um baráttu hinseginfólks fyrir sýnileika í Rússlandi og þær lagalegu aðferðir sem samtök hinsegin fólks nýta sér í þeirri baráttu.  

„Að vera frá Rússlandi og Íslandi er skrýtin blanda þegar kemur að þessum málefnum,“ segir Anastasía. 

„Þrátt fyrir að Ísland ætti að vera komið enn lengra í hinsegin málum og hinsegin fólk verði enn fyrir fordómum hér á landi þá telst Ísland vera ákveðin „paradís fyrir hinsegin fólk, miðað við mörg önnur lönd. Í Rússlandi getur hinsegin fólk ekki verið opið með kynhneigð sína og verður fyrir hrikalegri mismunun. Það liggur við að fólk sé myrt á hverjum degi vegna kynhneigðar sinnar eða kynvitundar þar,“ segir Anastasía.

Mótmælandi ber grímu með andliti Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta í mótmælum …
Mótmælandi ber grímu með andliti Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta í mótmælum í þýsku borginni Hamborg gegn meðferð rússneskra stjórnvalda á hinsegin fólki. AFP/Axel Heimken

Hefur eyðilagt sýnileika hinsegin fólks

Hún bjó hjá móður sinni í Rússlandi í fjóra mánuði á meðan hún rannsakaði það hvernig frjáls félagasamtök sem starfa í þágu hinsegin fólks í Rússlandi hafa nýtt sér lagalegar aðferðir til þess að vekja athygli á málefnum hinsegin fólks í stað þess að grípa til mótmæla eða halda viðburði.  

„Pólitíska staðan í Rússlandi er orðin það erfið og flókin fyrir hinseginfólk að það hefur gjörsamlega eyðilagt sýnileikann þeirra og þau hafa þurft að leita í þessar lagalegu aðferðir til þess að halda hreyfingunni gangandi,“ segir Anastasía.  

Lagalegu aðferðirnar sem um ræðir nefnast á ensku strategic litigation, í lauslegri þýðingu blaðamanns: Stjórnlistarleg málaferli. Í því felst að lögfræðingar hinsegin hreyfingarinnar í Rússlandi taka að sér mál hinsegin einstaklinga sem þeir telja að geti ekki einungis verið hjálpleg fyrir einstaklinginn heldur einnig fyrir hreyfinguna í heild sinni. Þessi mál eru annað hvort líkleg til þess að falla sækjendunum í hag eða fá mikla athygli ef þau komast í dómssal.  

„Þá í raun eyða þau miklum tíma og fjármagni í þessi mál og auka þannig fjölmiðlaumfjöllun. Aktívisminn felst því mikið í að auka sýnileika á ákveðnum dómsmálum í stað þess að fara og mótmæla eða halda opinbera viðburði,“ segir Anastasía.  

Frá Gleðigöngunni í Reykjavík. Anastasía segir stöðuna á baráttu hinsegin …
Frá Gleðigöngunni í Reykjavík. Anastasía segir stöðuna á baráttu hinsegin fólks hér á allt öðrum stað en í Rússlandi. Þó megi ýmislegt bæta hérlendis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flokka flest undir svokallaðan samkynhneigðan áróður

Lagaramminn í Rússlandi er ekki hliðhollur hinsegin fólki og í raun andstæður því. Þannig eru þar í landi lög sem banna allt sem rússnesk stjórnvöld kalla „samkynhneigðan áróður“ sem beinist gegn börnum. Lögin eru víðtæk og segir Anastasía að nánast hvað sem er sem hinsegin einstaklingur gerir geti flokkast sem áróður sem beinist gegn börnum í augum rússneskra stjórnvalda. 

„Samkynhneigt fólk sem kyssist úti á götu getur verið kært fyrir að vera með áróður gegn börnum þar sem hugmyndin á bak við lögin er sú að börn geta verið hvar sem er,“ segir Anastasía og bendir á að af þessum sökum geti hinsegin hreyfingin ekki haldið viðburði á opinberum vettvangi vegna þess að það geti verið flokkað sem áróður. 

Því er í raun eini möguleikinn í stöðunni fyrir hinsegin hreyfinguna í Rússlandi að vekja athygli á málefnum hennar í dómssal. Með þeim hætti geta fjölmiðlar líka fjallað um hinsegin málefni en það gera þeir almennt ekki, í það minnsta ekki á jákvæðum nótum, þar sem þeir geta fengið sekt vegna þess.  

„Ef dómsmál njóta mikillar athygli geta fjölmiðlar fjallað um þau og þannig rætt hinsegin mál án þess að vera sakaðir um áróður,“ segir Anastasía.  

„Pólitíska staðan í Rússlandi er orðin það erfið og flókin …
„Pólitíska staðan í Rússlandi er orðin það erfið og flókin fyrir hinsegin fólk að það hefur gjörsamlega eyðilagt sýnileikann þeirra,“ segir Anastasía. AFP

Samþykkja að glæpur hafi verið framinn en ekki hatursglæpur

Eins og áður segir verndar rússneski lagaramminn ekki hinsegin fólk landsins. Þannig er hinsegin fólk ekki skilgreint sem minnihlutahópur og því er fyrir lögum ekki möguleiki að færa rök fyrir því að glæpir gegn hinsegin fólki séu hatursglæpir. Samt halda lögmenn hinsegin hreyfingarinnar í landinu áfram að berjast og er eitt af helstu markmiðum þeirra að dómskerfið viðurkenni að hinsegin fólk sé minnihlutahópur.  

„Flest málin sem þau taka sýna skýrt að ráðist var á viðkomandi einstakling vegna þess að hann er hinsegin,“ segir Anastasía. „Þetta eru auðvitað ríkisborgarar Rússlands og hafa því ákveðin réttindi, til dæmis að ekki sé ráðist á þau. Yfirleitt endar dómurinn með því að dómararnir viðurkenna glæpur hafi verið framinn en samþykkja ekki að það hafi verið hatursglæpur. 

Niðurstöður rannsóknar Anastasíu voru „bæði jákvæðar og neikvæðar“. Fleiri lögfræðingar hafa t.a.m. gengið til liðs við hreyfinguna á síðustu tíu árum og sýnileiki hreyfingarinnar hefur aukist í takt við það, sérstaklega á meðal hinsegin fólks, að hún hefur sótt í auknum mæli í umræddar lagalegar aðferðir.  

„Þær höfðu mjög jákvæð áhrif á hreyfinguna sjálfa en ekki mikil áhrif á samfélagið né lagarammann í landinu,“ segir Anastasía.  

Rússneskur aðgerðasinni heldur á skilti sem stendur á „ást er …
Rússneskur aðgerðasinni heldur á skilti sem stendur á „ást er sterkari en hatur gegn samkynhneigðum“ eftir að honum var komið fyrir í lögreglubifreið í kjölfar óleyfilegra mótmæla í Rússlandi árið 2013. AFP/Kirill Kudryavtsev

Héldu að þau væru ein í heiminum

Hún ræddi við fólk innan hinsegin hreyfingarinnar við rannsókn sína. Hún segir að rússneskukunnátta hennar hafi hjálpað til við að finna viðmælendur og allt hafi komist af stað í þeim efnum þegar hún komst í kynni við einstaklinga innan hinsegin hreyfingarinnar sem hjálpuðu henni að láta orðið um rannsóknina berast. Viðmælendurna hitti hún almennt í gegnum fjarfundabúnað eða á stöðum þar sem annað fólk heyrði ekki til.  

„Það sem mörg þeirra töluðu um var að áður en þau fóru að kynnast hreyfingunni héldu þau að þau væru einu hinsegin manneskjurnar í heiminum, sem er auðvitað mjög einangrandi,“ segir Anastasía sem ræddi við rússneskt hinsegin fólk sem annað hvort bjó enn í heimalandinu eða hafði flúið land.  

Hótanir um sprengjuárás

Þá sótti hún einnig viðburð hreyfingarinnar sem haldinn er árlega þar sem fjöldi fyrirlestra um hinsegin málefni fer fram.  

„Það er mjög vel passað upp á öryggi í kringum þetta: Þau ráða öryggisfyrirtæki sem fylgir ströngum reglum og passar öryggi þátttakendaÞátttakendur þurfa einnig að svara löngum spurningalistum áður en hægt er að skrá sig á viðburðina og sýna síðan skilríki við komu. Staðsetning viðburðanna er einnig mjög falin og einungis tilkynnt með stuttum fyrirvara til þeirra sem hafa skráð sig. Samt sem áður er magnað að þau geti haldið þetta í Pétursborg þar sem margir koma saman til að ræða málefni hinsegin fólks. Þetta er hátíð sem fær næstum því árlega hótanir og hafa þau þurft að hætta við vegna hótana um sprengjuárás,“ segir Anastasía.  

„Það sem mörg þeirra töluðu um var að áður en …
„Það sem mörg þeirra töluðu um var að áður en þau fóru að kynnast hreyfingunni héldu þau að þau væru einu hinsegin manneskjurnar í heiminum, sem er auðvitað mjög einangrandi,“ segir Anastasía. AFP/Oscar Del Pozo

„Ég var alveg smeyk“

Spurð hvort hún hafi sjálf aldrei verið smeyk, verandi að rannsaka málefni sem er afar viðkvæmt í rússnesku samfélagi, segir Anastasía: 

„Ég var alveg smeyk og meðvituð um að vera ekki að tala um þetta við hvern sem er. Ég sagði bara að ég væri í rannsóknarvinnu og þá spurði fólk oft ekkert meira út í það. Amma mín sagði mér að segja þeim sem spurðu að ég væri að rannsaka sögu Rússlands og þá myndi enginn nenna spurja meira út í það,“ segir Anastasía. Ráð ömmunnar svínvirkaði.  

Ég var frekar heppin vegna þess að ég var heima hjá mömmu minni og kom til Rússlands undir því yfirskini að ég væri bara að heimsækja hana. Þess vegna gat ég sloppið frá því að tilkynna hvað ég væri að rannsaka, það hefði vissulega skapað vandræði. Það var einnig ekki mikill möguleiki fyrir mig að vinna rannsóknina í samstarfi við rússneska háskólþar sem rannsakendur forðast þetta málefni auðvitað algjörlega. Ég var meðvituð um þetta og passaði mig á því hvernig ég talaði og hagaði mér. Ég hefði ekki setið á miðju kaffihúsi, opnað tölvuna mína og haft textann opinn á rússnesku fyrir framan alla.“ 

Anastasía lenti þó sjálf aldrei í neinum vandræðum vegna rannsóknarinnar. Hún segir að þegar eldra fólk sem hún þekkti hafi frétt af skrifum hennar hafi það helst ekki viljað tala meira við hana um málið.  

Staðan versnaði eftir að stríð braust út

24. febrúar síðastliðinn réðust rússneskar hersveitir inn í Úkraínu. Anastasía var sjálf farin frá Rússlandi þá en hafði ætlað sér að fara aftur til Rússlands og sá fyrir sér að geta mögulega haldið áfram með rannsóknina. 

„En það algjörlega flaug út um gluggann þegar stríðið hófst. Ég var alls ekki búin undir þetta,“ segir Anastasía sem hafði ekki orðið vör við nein merki um að stríð væri við það að hefjast þegar hún dvaldi í Rússlandi. 

Hennar rannsóknarvinnu lauk í desembermánuði og segir hún að staða hinsegin fólks í Rússlandi hafi versnað mjög eftir að stríðið hófst.  

„Pólitíska staðan fór versnandi gagnvart þeim sem minnihlutahóp,“ segir Anastasía.  

„Þessi hreyfing sem var svo lítil virðist vera að detta í sundur.“  

Hún ræddi við þrjú stærstu frjálsu félagasamtök Rússlands í hinsegin málefnum við rannsókn sína. 

Ein samtökin hafa þurft hætta sínu starfi, önnur hafa misst næstum allt fjármagn og þU þriðju hafa þurft að flytja skrifstofu sína úr landi en reynir samt að halda hreyfingunni gangandi,“ segir Anastasía.  

Þessi versnandi staða hefur orðið til þess að hana langar til þess að halda áfram að rannsaka stöðu hinsegin fólks í Rússlandi.  

„Mig langar að birta grein úr ritgerðinni sem myndi þá líka snerta á því hvernig þetta hefur þróast frá því að stríðið hófst og hvaða áhrif það hefur haft á hinsegin fólk, en það þarf kannski að bíða betri tíma þar sem ástandið er óstöðugt og breytist á hverjum degi, segir Anastasía að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert