Stóru skjálftarnir hafa lítið með kvikuna að gera

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emerítus.
Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emerítus. mbl.is/Sigurður Bogi

„Spurningar um gos eða ekki gos hafa ekkert með stærð skjálftanna að gera. Yfirleitt fylgja frekar litlir skjálftar kvikuganginum sjálfum,“ segir Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus.

Hann bendir á að það eru aðallega gikkskjálftarnir sem séu stórir og þeir í raun og veru hafi ekkert mikið með kvikuna að gera.

Stórir skjálftar benda því ekki til kröftugra goss?

„Nei, það segir bara hvað spennan er mikil á flekaskilunum og það er í raun óháð því hvað kvikugangurinn er öflugur.“

Dýpt skiptir ekki miklu máli

Þá segir Páll að dýpt skjálftanna skipti í raun og veru ekki miklu máli. „Ég held að menn leggi einum of mikla meiningu í það,“ segir hann.

„Það er tvennt í gangi. Annað er gangurinn sjálfur, þessi kvikugangur, sem er að troðast upp undir Fagradalsfjalli og hann breytir spennuástandinu á miklu stærra svæði og þeir skjálftar eiga sér stað á öllu dýpi sem hugsast getur og hafa ekkert með kvikuna að gera í raun og veru,” segir Páll og bætir við:

„Það er bara spennan á flekaskilunum sem er að losna vegna þess að gangurinn er að breyta spennuástandinu. Hann virkar eins og gikkur og þess vegna tölum við um gikksjálfta.“

Hann segir þá að þegar lögð sé meining í dýpi skjálfta sé verið að tala um skjálftana í kringum ganginn sjálfan.

Ekki sama skjálfti og skjálfti

Páll segir margar sviðsmyndir í gangi og eiginlega ómögulegt að greina þar á milli. Það kunni vel að vera, eins og gerðist í gosinu í mars á síðasta ári en þá dró verulega úr skjálftavirkninni í tvo daga áður en að gosið byrjaði.

„Þannig að minnkandi skjálftavirkni gæti verið merki um að gos sé að koma. Þetta er flóknara heldur en svo að fleiri skjálftar séu meiri líkur á gosi. Það er ekki sama skjálfti og skjálfti,“ bætir Páll við.

mbl.is
Loka