Helmingi færri skjálftar í dag og aukin gasmengun

Frá gosinu í gær. Hætta er á gasmengun í dag …
Frá gosinu í gær. Hætta er á gasmengun í dag og í gær á svæðinu í kringum gosstöðvarnar. mbl.is/Hákon Pálsson

Um helmingi færri skjálftar hafa gengið yfir frá miðnætti í dag en á sama tíma í gær. Þetta staðfestir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is. Þá er fólk beðið að fara varlega í dag og kvöld vegna gasmengunar á svæðinu.

400 skjálftar hafa gengið yfir á Reykjanesskaganum en á sama tíma í gær voru þeir um 800. Jafnframt hafa skjálftarnir verið töluvert minni. Sérfræðingur Veðurstofunnar bendir á að þetta sé þróun sem þau búist við eftir því sem líður á gosið.

„Þeir hafa haldist frekar litlir síðan í gærkvöldi. Við sáum í síðasta gosi að það fór að draga úr skjálftum og við búumst við að það gerist líka núna.“

Möguleg gasmengun í kvöld

Þá ítrekar Veðurstofan að fólk fari varlega á svæðinu í kringum gosstöðvarnar þar sem mikil gasmengun geti verið á svæðinu.

„Það er norðanátt sem þýðir að gasið er að stefna í átt að gönguleiðunum svo fólk þarf að passa sig,“ segir náttúruvársérfræðingur Veðurstofunnar og bætir við að sérstaklega varasamt gæti orðið að vera á þeim slóðum seinna í kvöld.

Vindinn mun lægja í kvöld og gas því safnast saman í lautum, hlíðum og öðrum stöðum. 

Veðurstofan mun setja upp gasmæla á svæðinu á morgun og nýta daginn í dag til að skipuleggja framkvæmdina.

Annars hafa ekki orðið miklar breytingar á gosinu síðan í gær. „Þetta heldur bara áfram að malla þarna,“ segir sérfræðingur Veðurstofunnar.

mbl.is