Eins og öldugangur í hrauntjörninni

„Það gýs upp í gegnum hrauntjörn og það er eiginlega …
„Það gýs upp í gegnum hrauntjörn og það er eiginlega eins og öldugangur í tjörninni.“ mbl.is/Hákon

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir óvanalegt að sjá að það gjósi upp í svo stóra hrauntjörn eins og þá í Meradölum, en engir almennilegir gígar hafa myndast enn sem komið er.

„Það gýs upp í gegnum hrauntjörn og það er eiginlega eins og öldugangur í tjörninni, þannig að allt sem hleðst upp lendir bara ofan í tjörninni aftur og myndast svona skán ofan á því,“ segir Magnús í samtali við mbl.is.

„Þess vegna er þetta frekar óvanalegt að sjá, en þannig er þetta núna og er afleiðing af því að þarna byrjaði að gjósa ofan í dæld sem þurfti að fyllast af hrauni og þess vegna verður þessi hrauntjörn til og er enn, þó hún sé alltaf að hækka.“

Það verði að koma í ljós hvort almennilegir gígar muni myndast, en það breyti í sjálfu sér „ósköp litlu“. „En þetta er svona frekar óvanalegt að það gjósi upp í svona stóra tjörn,“ bætir hann við.

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur.
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur. mbl.is/Árni Sæberg

Ekkert bendi til nýrra gossprunga

Magnús segir litlar breytingar hafa orðið á gosinu milli daga. „Ekki er hægt að fullyrða að þetta sé að minnka en það er ekki að stækka.“

Spurður um líkur á að nýjar gossprungur opnist segir hann engar vísbendingar um að það gerist á næstunni. „Það getur alveg gerst í framtíðinni en það er ekkert sem bendir til þess að það sé að fara að gerast núna.“

„Þetta er að vísu ofan í dæld og svo er fjallið þarna fyrir norðan, þannig að það er aðeins meira mál að opna nýjar sprungur þarna norðan við heldur en var í fyrra gosi.

Það er þá líklegt að ef það gerist muni það gerast alveg fyrir norðan fjallið af því að meiri þrýsting þarf til þess að komast upp í gegnum fjallið heldur en að fara upp þessa leið sem það er að fara núna. Það er líklegt að þetta malli eitthvað svona áfram, en við bara bíðum og sjáum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert