SÍ hafi ekki farið að lögum um hópuppsagnir

Sjúkratryggingar Íslands fóru ekki að lögum um hópuppsagnir þegar fjórtán …
Sjúkratryggingar Íslands fóru ekki að lögum um hópuppsagnir þegar fjórtán stjórnendum var sagt upp vegna skipulagsbreytinga, samkvæmt umboðsmanni Alþingis. mbl.is/Sigurður Bogi

Umboðsmaður Alþingis segir Sjúkratryggingar Íslands ekki hafa farið að lögum um hópuppsagnir þegar fjórtán stjórnendum var sagt upp vegna skipulagsbreytinga.

Þrír starfsmenn höfðu kvartað vegna uppsagnanna, meðal annars á þeim forsendum að ákvæðum laga um hópuppsagnir hefði ekki verið fylgt. Stofnunin ber fyrir sig að fjöldi starfsmanna sem sagt var upp, hafi ekki náð 10% af heildarfjölda starfsmanna stofnunarinnar, og því ættu lögin ekki við. Að stjórnarmönnum meðtöldum hefðu starfsmenn verið 143. 

Samkvæmt tilkynningu á vef umboðsmanns Alþingis, benti umboðsmaðurinn á að stjórnarmenn væru skipaðir af ráðherra til ákveðins tíma og þar af leiðandi óháðir stjórnunarvaldi forstjóra. Taldi hann SÍ hafa ofmetið fjölda starfsmanna um a.m.k. fimm og af þeim sökum hefði átt að fara að ákvæðum laganna. Uppsagnirnar hefði því að þessu leyti ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður mælti með að leitað yrði leiða til að rétta hlut þremenninganna en að öðru leyti yrði það að vera verkefni dómstóla að meta réttaráhrif þessa annmarka ef málin yrðu lögð í þann farveg. Þá sendi hann álitið til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og innviðaráðuneytisins, að því er fram kemur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert