Kostnaðurinn smávægilegur miðað við afleiðingarnar

Kostnaður við rannsóknir á eldgosum er smávægilegur ef tekið er mið af kostnaðinum og þeim áhrifum sem eldgos geta haft á íslenskt samfélag, að sögn Þorvalds Þórðarsonar, prófessors í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.

„Peningarnir sem fara í rannsóknir, þeir eru alltaf mjög lítill hluti af þeim kostnaði sem hugsanlega gæti komið til ef við gerum ekki þessar varúðarráðstafanir og drögum úr áhrifum eldgosanna.“

Hann segir að ekki sé hægt að leggja mat á hugsanlegan tjónakostnað sem gæti hlotist af eldgosinu í Meradölum eins og er. 

Gæti orðið frekar óþægilegt fyrir marga

Þorvaldur veltir því þó upp hvað myndi til að mynda gerast ef eldgosið ylli tjóni á heita- og kaldavatnslögnum á Reykjanesinu yfir vetrartímann. 

„Þá er spurningin hversu hratt getum við komið þessu aftur í gang? Erum við tilbúin með aðgerðir til þess að takast á við slík vandamál? Við viljum náttúrulega ekki að fólk sé heitavatnslaust í marga daga að vetri til, til dæmis. Það gæti orðið frekar óþægilegt fyrir marga.“

Spara þjóðinni háar fjárhæðir

Þá veltir hann því einnig upp hvað myndi gerast ef eldgos tæki út bæði Keflavíkurveginn og Suðurstrandarveginn með þeim afleiðingum að Suðurnesin, og þar með Keflavíkurflugvöllur, myndu lokast af. 

„Hvað kostar það okkur? Og þá er ég ekki bara að tala um Suðurnesin, heldur íslenskt samfélag í heild. Hvað kostar það ef við getum ekki flutt út ferskan fisk mjög auðveldlega? Ef ferðamenn geta ekki komið til landsins af því að aðgengi að stærsta hluta landsins er ekki lengur til staðar? Þetta eru stórar fjárhæðir,“ segir Þorvaldur.

Bætir hann við að með því að þróa skilning, þekkingu og aðferðir sem munu hjálpa okkur að draga úr slíkum áhrifum, muni það spara þjóðinni háar fjárhæðir.

Þorvaldur veltir því upp hvaða áhrif það myndi hafa á …
Þorvaldur veltir því upp hvaða áhrif það myndi hafa á íslenskt samfélag ef Suðurnesin, og þar með Keflavíkurflugvöllur, myndu lokast af vegna eldgoss. Samsett mynd
mbl.is
Loka