Lofar meiri hávaða næst eftir engin svör

Kristín kveðst gáttuð á úrræðaleysi meirihlutans í borgarstjórn.
Kristín kveðst gáttuð á úrræðaleysi meirihlutans í borgarstjórn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst mjög líklegt að það verði meiri hávaði, meiri óánægja og meiri örvænting í fólki,“ segir Kristín Tómasdóttir í samtali við mbl.is eftir mótmælin í Ráðhúsinu í morgun. Hún segir borgarfulltrúa hafa talað niður til sín.

Um hundrað manns söfnuðust saman fyrir utan fundarherbergi borgarráðs fyrr í dag, til að mótmæla úrræðaleysi í málum fjölskyldna ungra barna sem bíða þess að komast inn á leikskóla.

Kristín, sem er fjögurra barna móðir og skipulagði mótmælin, segir að fátt hafi verið um svör af hálfu borgarfulltrúa. Mótmælin verði því endurtekin að viku liðinni.

Fjöldi foreldra kom saman í Ráðhúsinu.
Fjöldi foreldra kom saman í Ráðhúsinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur með engin svör

Kristín kveðst ánægð með það hversu margir mættu til að mótmæla.

„Það voru ofboðslega margir sem mættu, margir barnavagnar og fjöldi foreldra,“ segir hún og nefnir dæmi um móður í klæðnaði heilbrigðisstarfsmanns sem kom til að mótmæla, sem komist ekki í vinnuna á Landspítalanum.

„Fullt af fólki sem er í alveg sömu örvæntingunni og ég.“

Aðspurð segir hún að fátt hafi verið um svör við kröfum mótmælenda um skjót viðbrögð borgarinnar við að fjölga leikskólaplássum.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ræddi við mótmælendur í morgun.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ræddi við mótmælendur í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lítið um samkennd

„Borgarstjórinn vill meina að þau þurfi að fara betur yfir áætlanir. Hann lofaði engum breytingum, engum aðgerðum, hann ætlar ekki að gera neitt annað en að skoða tölur sem tengjast plássum á einkareknum leikskólum, og hann ætlar að gera það eftir viku,“ segir hún og bætir við að borgarstjórinn, Dagur B. Eggertsson, hafi sagt við hana að þau hefðu engin svör í dag.  

„Mér finnst það svakalegt að þau hafi ekki ætlað að eyða þessum borgarráðsfundi í að tala um lausnir og mér finnst rosalega alvarlegt, þegar um hundrað manns eru mættir til þess að sýna örvæntingu sína, að þeir sýni því ekki meiri virðingu en svo að þeir ræða ekki einu sinni lausnir. Það finnst mér vera rosalegt,“ segir hún.

„Það var enginn sem sýndi okkur samkennd, nema kannski hann Einar Þorsteinsson [oddvita Framsóknar í borgarstjórn]. Hann hefur samkennd með okkur og er opinn fyrir því að við grípum til einhverra aðgerða sem annars er ekki gripið til.“

Kristín ræðir við Einar Þorsteinsson, oddvita og borgarfulltrúa Framsóknarflokksins í …
Kristín ræðir við Einar Þorsteinsson, oddvita og borgarfulltrúa Framsóknarflokksins í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Talað niður til hennar

Kristín segir að einn borgarfulltrúi, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, hafi beinlínis talað niður til hennar.

„Mér fannst Þórdís Lóa tala niður til mín, hún sagði að þetta væru allt lausnir sem búið væri að skoða en ég spurði hvort við gætum ekki opnað einhvern leikskóla án þess að lóðin væri tilbúin, en hún hélt nú ekki. Það voru engar lausnir, bara vörn.“

Minnihlutinn sé hins vegar opinn fyrir lausnum.

„Þau mættu bara með kaffibolla til okkar,“ segir hún. „En þau bera náttúrulega ekki ábyrgð.“

Engar lausnir bara útskýringar

Kristín gagnrýnir að auki svör Skúla Helgasonar, borg­ar­full­trúa Sam­fylk­ing­ar­inn­ar sem fyrir starfshópi um uppbyggingu leikskólaí viðtali sem mbl.is tók við hann vegna mótmælanna.

Mikið sé um útskýringar en fátt um lausnir.

„Ekki einu sinni hann, sem formaður nefndar um uppbyggingu leikskóla á höfuðborgarsvæðinu, getur verið með einhverjar lausnir við þeim neyðarvanda sem er uppi núna. Það er engin lausn, bara útskýringar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina