Mótmæla leikskólamálum í „lamasessi“

Kristín Tómasdóttir, fjögurra barna móðir og fjölskyldumeðferðarfræðingur, hefur efnt til …
Kristín Tómasdóttir, fjögurra barna móðir og fjölskyldumeðferðarfræðingur, hefur efnt til mótmæla. Samsett mynd

Krist­ín Tóm­as­dótt­ir, fjög­urra barna móðir og fjöl­skyldumeðferðarfræðing­ur, hefur efnt til mótmæla vegna úrræðaleysis í málum fjölskyldna ungra barna sem bíða þess að komast inn á leikskóla.

Hvetur hún alla foreldra sem ekki hafa dagvistun fyrir börn sín til að mæta í Ráðhús Reykjavíkur kl. 08.45 á fund borgarráðs á fimmtudaginn.

Viðburðinn má nálgast hér.

Fékk pláss í lokuðum leikskóla

„Borgarráð er æðsta vald borgarinnar og ef það er eitthvað sem þau eiga að taka fyrir núna eru það náttúrlega þessi leikskólamál sem eru í lamasessi,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Í síðasta mánuði lýsti hún bagalegri stöðu sinni sem foreldri barns í Reykjavík sem biði þess að koma dóttur sinni í leikskóla. Það sem hefur breyst í hennar málum er að dóttir hennar fékk pláss í leikskólanum Ævintýraborg við Nauthólsveg. Sá leikskóli er hins vegar lokaður og fær dóttir hennar leikskólapláss í fyrsta lagi um miðjan október.

„Það er bara ekki nógu gott. Ég get ekki beðið þar til um miðjan október með dagvistun fyrir barnið mitt sem er sautján mánaða, það er bara ekki hægt.“

Algjört úrræðaleysi

Með mótmælunum vill Kristín hvetja borgarráð til að grípa til allra ráðstafana sem hægt er að grípa til og láti einskis ófreistað til að koma leikskólamálunum í betra horf.  

Kristín og eiginmaður hennar standa frammi fyrir algjöru úrræðaleysi sökum þess að dóttir þeirra fær ekki pláss í dagvistun.

„Það er bara algjört úrræðaleysi. Við erum búin með öll sumarleyfi, við erum búin að nýta öll úrræði sem við gátum notað til að brúa þetta bil. Það er ekkert annað sem við getum gert núna en að hætta að vinna og passa barnið okkar. Við getum ekki skilið hana eina eftir heima.“

Foreldrar eru hvattir til að mæta á fund borgarráðs á …
Foreldrar eru hvattir til að mæta á fund borgarráðs á fimmtudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óskar eftir svörum fyrir fund borgarráðs

Fátt er um svör að sögn Kristínar þegar leitað er svara hjá borginni um fyrirhugaðar aðgerðir. Hún hefur aftur á móti sent fyrirspurn til Helga Grímssonar, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs borgarinnar, þar sem hún leitast eftir svörum eftir viðtal við hann í Morgunblaðinu í dag.

Kristín segir Helga gefa þrjár meginskýringar á því hvers vegna dagvistunarmálin í borginni séu í lamasessi. Segir hún skýringar þessar ekki halda vatni og sendi því eftirfarandi spurningar á Helga með ósk um svör fyrir borgarráðs á fimmtudaginn.

Feitletraðar eru þær skýringar sem hún segir Helga gefa.

1. Fólk er enn í sum­ar­frí­um og við erum líka að safna sam­an upp­lýs­ing­um úr mjög ólík­um átt­um.

Þegar ég var að vinna í félagsmiðstöð á vegum Reykjavíkurborgar þá fékk ég ekki leyfi til þess að taka sumarfríið mitt þegar háannatími var í miðstöðinni. Hefði ekki verið nær að skipuleggja sumarleyfi starfsfólks innritunardeildar Reykjavíkurborgar á þann hátt að þegar foreldrar koma úr sumarleyfum með börnin sín og þá vantar nauðsynlega dagvistun þá liggi þær upplýsingar fyrir og strandi ekki á sumarleyfum starfsfólks?  

Hvað áttu við þegar þú nefnir að safna saman upplýsingum úr mörgum áttum? Lágu þessar upplýsingar ekki fyrir á vorönn? Var ekki hægt að afla þessara gagna í sumar? Hvers vegna þarf að safna þessum gögnum akkúrat núna þegar við þurfum að koma börnum borgarinnar í rútínu og dagvistun? Ég finn lykt af illa skipulagðri rannsóknarvinnu sem hefði þurft að fara af stað töluvert fyrr. Nú og svo væri gott að vita hvernig hægt sé að flýta fyrir þessari upplýsingaöflun?

2. Staða fram­kvæmda á ein­staka bygg­ing­um og eins þurfi að kanna hvort verk­tak­ar séu til­tæk­ir og hvenær þeir skila af sér verk­efn­um. Hann bæt­ir við að einnig þurfi upp­lýs­ing­ar um stöðu mönn­un­ar á leik­skól­un­um, svo að mörgu er að hyggja.

Svara verktakar ekki í síma yfir sumarmánuði? Lá það ekki fyrir í janúar á þessu ári að það þyrfti að klára verk á einstaka byggingum eða að það þurfi að klára lóðir í kringum leikskóla? Hvers vegna fór ekki fram útboð meðal verktaka í verkin fyrir lööööngu síðan? Eruð þið að segja mér það að það sé ekki ennþá búið að kanna hvort það geti einhver verktaki tekið að sér þessi verk? Og þá hvenær mun það samtal eiga sér stað og hver ætlar að taka þetta samtal? Helst vil ég þó vita hvað Reykjavíkurborg hyggst gera við ódagvistuð börn á meðan lóðir og framkvæmdir eru ókláraðar. Í þessu samhengi langar mig til þess að benda borginni á leikskóla á Norðurlöndunum þar sem lóðir eru ekki hluti af leikskólastarfinu heldur er farið með börnin í útiveru á önnur opin svæði. Í tilfelli Ævintýraborgar við Nauthólsveg má t.d. nýta Öskjuhlíðina. Hafa slíkar ráðstafanir verið ræddar? Eða leggur borgin til önnur úrræði?

3. Það eru svo ofboðslega mikl­ar breyt­ing­ar á þess­um list­um hjá okk­ur. Hvert barn sem flyt­ur til Reykja­vík­ur, sem er tveggja ára eða eldra, ýtir ein­hverj­um út sem hefði kannski verið næst­ur í röðinni. Við þurf­um alltaf að vinna eft­ir kenni­töluröðun­inni og erum með síkvik­ar upp­lýs­ing­ar, sem við þurf­um að vinna úr til að geta gefið heild­ar­mynd af stöðunni. 

Notar Reykjavíkurborg ekki Excel? Það er til fjöldinn allur af tölvusnillingum sem starfa nú þegar hjá borginni sem geta reiknað út og áætlað á augabragði stöðuna í næstu viku, næsta mánuði og næstu árin ef því er að skipta. Hversvegna nýtir borgin ekki þennan mannauð til þess að hjálpa sér við að gera áætlanir sem standast?

mbl.is
Loka