Meðalrennsli hrauns upp á yfirborðið í eldgosinu í Meradölum mældist 3-4 rúmmetrar á sekúndu frá laugardegi til gærdagsins. Þetta sýna nýjustu mælingar Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, eftir að flogið var yfir gosstöðvarnar þessa daga.
Í tilkynningu frá stofnuninni segir að mjög hafi dregið úr gosinu, svo að ekki verði um villst.
Til samanburðar var hraunflæðið 4.-13. ágúst metið að meðaltali 11 rúmmetrar á sekúndu.
„Er þetta í samræmi við að undanfarna daga hefur gosopum fækkað og hrauntaumar hafa runnið skemur í Meradölum en var framan af,“ segir í tilkynningunni.
Ómögulegt sé að segja um á þessu stigi hvort goslok séu nærri, eða hvort nú er aðeins tímabundið lágmark í gosinu.