38% luku bakkalárgráðu á þremur árum

Árið 2014 var hærra brautskráningarhlutfall en hjá nýnemum haustsins 2011, …
Árið 2014 var hærra brautskráningarhlutfall en hjá nýnemum haustsins 2011, en tæp 34% þeirra höfðu útskrifast eftir þriggja ára nám. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

38,1% þeirra 2.310 nýnema sem hófu þriggja ára nám til bakkalárgráðu í háskólum á Íslandi árið 2014 luku náminu á tilætluðum tíma. Til viðbótar höfðu 0,2% útskrifast úr öðru háskólanámi, svo sem tveggja ára diplómanámi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofu Íslands.

Fram kemur að 24,2% hættu námi eða tóku sér tímabundið hlé en 37,5% voru enn í háskólanámi án þess að hafa brautskráðst. Alls höfðu 40,4% kvenna brautskráðst úr háskólanámi eftir þrjú ár og 35,5% karla.

Rúmlega tveir þriðju luku prófi á sex árum

Þegar litið er á stöðu þeirra sem hófu nám haustið 2014, sex árum eftir innritun, þ.e. árið 2020, og þremur árum eftir að námi hefði átt að vera lokið, höfðu 68,5% nýnema lokið bakkalárgráðu og 0,4% höfðu lokið öðru háskólanámi.

Til samanburðar höfðu 67,2% nýnema haustið 2011 lokið bakkalárgráðu sex árum eftir innritun og 0,7% þeirra höfðu lokið öðru háskólanámi.

Þá hættu alls 20,3% af nýnemum haustsins 2014 námi á fyrsta námsári en 79,0% héldu áfram námi til bakkalárgráðu og 0,7% höfðu skipt yfir í annað háskólanám.

Fleiri nemendur í einkaskóla útskrifast eftir þrjú ár

Hagstofan birtir nú í fyrsta skipti tölur um brautskráningarhlutfall og brotthvarf eftir rekstrarformi háskóla.

Tölurnar sýna að eftir þrjú ár hafa fleiri nemendur einkaskóla brautskráðst, eða 41,7% á móti 37,0% nýnema í opinberum háskólum. Sex árum eftir upphaf náms, árið 2020, er brautskráningarhlutfallið hins vegar lítið eitt hærra í opinberu skólunum eða 69,3% á móti 68,0% í einkaskólunum.

Einnig eru í fyrsta skipti birtar tölur um brautskráningarhlutfall og brotthvarf eftir námssviði sex árum eftir upphaf náms, þ.e. árið 2020.

Hlutfall nýnema, sem höfðu útskrifast á sama sviði og þeir hófu nám, var hæst innan landbúnaðar, skógræktar, fiskveiða og dýralækninga en 70,7% nýnema á þessu sviði höfðu brautskráðst úr námi á sviðinu. Hlutfallið var lægst innan upplýsinga- og samskiptatækni þar sem 49,0% nýnema höfðu brautskráðst úr námi á því sviði eftir sex ár.

mbl.is