Hækkun stýrivaxta geri verðbólguna þrálátari

Kristján hefur áhyggjur af því að fólk fari að sækja …
Kristján hefur áhyggjur af því að fólk fari að sækja meira í verðtryggð lán. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hef verulegar áhyggjur af þessari stöðu, að það sé sífellt verið að grípa til stýrivaxtahækkana. Af því ég tel að það sé hægt að vinna á þessari stöðu með öðrum hætti,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), um hækkun stýrivaxta í áttunda sinn í röð.

Pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að stýrivextir skuli hækka um 0,75 pró­sent­ur. Meg­in­vext­ir bank­ans, vext­ir á sjö daga bundn­um inn­lán­um, verða því 5,5%.

Kristján telur líklegt að hækkun stýrivaxta muni frekar ýta undir að verbólga verði viðvarandi og þrálátari en ella.

„Þetta setur auðvitað bæði fasteignaeigendur og leigjendur á markaði í mjög erfiða stöðu, eykur útgjöld verulegu.“

Vítahringur ef fólk sækir í verðtryggð lán

Hann segir Seðlabankann hafa fleiri verkfæri í kistunni en eingöngu stýrivextina. Verðbólgan sé að megninu til vegna hækkunar á fasteignaverði og þar þurfi stjórnvöld að grípa inn í. Grípa þurfi til sértækra aðgerða til að vinda ofan af stöðunni.

„Það er ýmislegt sem hægt er að gera gagnvart þeim verðlagshækkunum sem við erum að sjá. Það er hægt að grípa til, eins og er aðeins að koma til, lækkun á bensínverði og olíu. Svo þarf að grípa til aðgerða varðandi fasteignamarkaðinn til að hemja hann, en ekki endilega með hækkun stýrivaxta.“

Kristján hefur áhyggjur af því að fólk fari í meira mæli að sækja í verðtryggð lán, þar sem greiðslubyrði þeirra sé almennt lægri, en sé að sama skapi dýr kostur fyrir neytendur.

„Það dregur síðan úr virkni stýrivaxta þegar fólk er að leita í meira mæli í verðtryggðu lánin, því breytingar á stýrivöxtum hafa minni áhrif á greiðslubyrgði. Þetta er vítahringur sem mér sýnist við vera að fara inn í.“

mbl.is