Vettvangsnám fyrstu dagana vegna myglu

Kvíslarskóli
Kvíslarskóli Ljósmynd/ Kvíslarskóli

Skólastarf í Kvíslarskóla í Mosfellsbæ verður í formi vettvangsnáms fyrstu fimm daga skólaársins. Staðnám hefst svo á mánudag á annarri hæð í húsnæði skólans og færanlegum kennslustofum. 

Ástæða þess er sú að í byggingu Kvíslarskóla kom upp tjón og leki í mars, þá greindist jafnframt örveruvöxtur, eða mygla, í botnplötum. Var því ákveðið að nýta tækifærið og endurnýja fyrstu hæðina í skólanum. 

Nemendur sem hafa verið með stofur þar, verða í færanlegum kennslurýmum fram að áramótum, en sama gildir um sérgreinar. 

Stefnt er á að opna mötuneytið í nóvember, en það er staðsett á fyrstu hæðinni og verður því ekki starfandi fyrstu tvo mánuði skólastarfsins. 

Þetta staðfestir Arnar Jónsson forstöðumaður þjónustu og samskiptadeildar hjá Mosfellsbæ. 

Vettvangsnám sem felur í sér kennslu

8. bekkur mun fyrstu dagana fara í Skemmtigarðinn í Grafarvogi, þar sem boðið verður upp á lasertag, mínígolf og fótboltagolf. Þá verður boðið upp á dagskrá við íþróttahús skólans og ferð á leikjabraut í Hveragerði. Loks verður farið í gönguferð í gegnum Reykjarlundarskóg. 

Nemendum í 9. bekk stendur einnig til boða ferð að leikjabrautinni í Hveragerði. Önnur vettvangsferð verður sigling út í Viðey þar sem eyjan verður skoðuð. Íþróttakennarar munu svo bjóða upp á leik í Felli og loks verður einnig farið í Skemmtigarðinn í Grafarvogi.

Farið verður, meðal annars, í ferð á Þingvelli með 10. bekkingum.

Arnar bendir á að um sé að ræða vettvangsnám sem skipulagt sé af kennurum og í því felist kennsla. 

Bæta bygginguna í leiðinni

„Við leigðum átta færanlegar stofur. Á meðan verið er að koma þeim fyrir þá er þetta vinnusvæði og þess vegna var skipulagt vettvangsnám fyrstu vikuna.“

Allt skemmt byggingarefni hefur verið fjarlægt, en auk þess var lögð áhersla á að koma salerniskjarna og anddyri fyrstu hæðar í lag. 

„Við ákváðum að nýta tímann til þess að innrétta fyrstu hæðina og færa hana að nútímakröfum. Stofum verður fjölgað um eina og í stað kynjaskiptra salerna með básum, eru nú ókyngreind einstaklingsrými, með salerni, vaski og læsingu, sem ná frá gólfi og upp í loft.“

Kom fram í reglulegri skimun

Arnar viðurkennir að myglan hafi í för með sér talsvert fjárhagslegt tjón, endanleg upphæð liggi ekki fyrir, en gert hafi verið ráð fyrir fjármögnun framkvæmdanna í fjárhagsáætlun og viðaukum vegna leigu á skólastofum.

„Okkar verkefni er að tryggja börnum heilnæmt skólahúsnæði. Við höfum verið með virka vöktun og skimað allar okkar skólabyggingar og kennslubyggingar reglulega. Hluti af skimuninni leiddi fram þennan veikleika í botnplötunni og við gripum strax til fyrstu aðgerða í mars.“

Arnar segir að skýrsla Eflu verkfræðistofu sé unnin jafnt og þétt eftir því sem verkefninu vindur fram og því liggi ekki fyrir lokaskýrsla á þessu stigi málsins. 

Húsnæðið var byggt af ríkinu árið 1974 sem gagnfræðiskóli Mosfellsbæjar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert