Viðvörunarkerfi á næsta leiti

Reynisfjara er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Þar hafa mörg slys …
Reynisfjara er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Þar hafa mörg slys átt sér stað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vinnu við viðvörunarkerfi í Reynisfjöru lýkur mjög fljótlega eða á allra næstu vikum, að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa hjá Vegagerðinni.

Pétur segir að neyðarlínan muni sjá um að kerfið sem verður uppsett í Reynisfjöru muni virka sem skyldi, þ.e.a.s. ljósabúnaður og myndavélar.

Vegagerðin tryggir hins vegar að upplýsingar berist til neyðarlínunnar um stöðuna hverju sinni, þ.e.a.s. hver viðvörunin þurfi að vera miðað við öldumælingar og spá og hver áhættustuðullinn sé. Neyðarlínan sér síðan um að þær upplýsingar birtist rétt á staðnum en unnið er að forritun þess ferlis.

Slys vegna öldugangs eru ekki óalgeng í Reynisfjöru en erlendur ferðamaður lést þar í júní síðastliðnum eftir að alda hreif hann með sér.

Friðrik Rafns­son, formaður Leiðsagn­ar, fé­lags leiðsögu­manna, gagnrýndi ör­ygg­is­mál við Reyn­is­fjöru harðlega í sam­tali við Morg­un­blaðið í gær. Spurði hann hvort „bíða ætti eftir næsta slysi þangað til eitthvað yrði gert eða skipa aðra nefnd?“

Pétur segir að Vegagerðin sé að vinna að gerð samninga milli aðila um málið. „Ljósaskiltin sjálf verða tilbúin innan skamms en reiknað er með að ljósastýringin verði tilbúin fljótlega. Staðan verður tekin eftir tvær vikur hjá undirbúningsfólkinu,“ bætir Pétur við.

mbl.is