Lénum sjaldan lokað á grundvelli innihalds á vef

Jens Pétur Jensen, framkvæmdastjóri ISNIC.
Jens Pétur Jensen, framkvæmdastjóri ISNIC. Ljósmynd/ISNIC

Fyrirtækið ISNIC – Internet á Íslandi hf. gerði lénið Kiwifarms.is óvirkt í morgun. Þetta staðfestir Jens Pétur Jensen, framkvæmdastjóri ISNIC í samtali við mbl.is og segir að lénið hafi verið skráð árið 2016.

Jens bætir jafnframt við að fyrirtækið hvorki samþykki né hafni skráningum léna. Það fari fram án aðkomu þriðja aðila og noktunin sé ávallt á ábyrgð rétthafa lénsins.

„Þetta er svipað og þegar þú skráir þig einhvers staðar á netinu fyrir einhverri þjónustu, þú byrjar á að stofna notandanafn og svo skráir þú lén og mesta lagi 20 mínútum síðar er það lén orðið virkt. Við vitum aldrei neitt um lénin, þau eru tæplega 86 þúsund og eru notuð í alls konar út um allt á internetinu.“

Vefsíðan Kiwi Farms er afar umdeild en notendur hennar eru þekktir fyrir að ofsækja trans og hinsegin fólk. Minnst þrír hafa svipt sig lífi í tengslum við stöðugar árásir notenda.

Röng lénaskráning algengasta ástæðan

„Það er ferli hjá okkur sem er alveg þekkt að það kemur ábending um til dæmis ranga lénaskráningu, sem er langalgengasta ástæðan fyrir því að léni er lokað. Það er af því að rétthafinn hefur ekki gefið ISNIC réttar upplýsingar um sjálfan sig.

Það er ein af reglunum við skráningu léna, þá er búið að brjóta hana og fjölmörgum lénum er lokað á þeim grundvelli,“ segir Jens.

Hann segir það koma mjög sjaldan fyrir að lénum sé lokað á grundvelli innihalds á vef.

Verði óvirkt fram yfir helgi

„ISNIC er með þjónustu sem margir nota og við köllum hana HFP, sem er skammstöfun á hosting, forwarding og parking. Við getum gripið þar inn í, ef viðkomandi hefur verið að nota þá þjónustu erum við að vissu marki hýsingaraðili.“

Lénið var sett á parking hjá ISNIC, sem er biðstaða. „Lénið er ennþá til en það er óvirkt í DNS, það verður hvorki notað fyrir tölvupóst né vefsíðu á meðan það er þar,“ segir Jens.

Hann gat ekki sagt til um það hvers vegna lénið hafi verið gert óvirkt, en sagði að það yrði óvirkt að minnsta kosti fram yfir helgina.

„ISNIC greip inn í í morgun, en eftir sem áður fer þetta ferli í gang þar sem viðkomandi þarf að gera grein fyrir sér og sendi hann okkur fullnægjandi gögn um sína tilvist, þá þyrfti einhver haldbær aðili að úrskurða um það hvort léninu yrði endilega lokað,“ segir Jens og á þá við lögreglu eða dómsvald.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert