Vilja leigubremsu og vaxtabætur

Kristrún Frostadóttir þingmaður Samfylkingarinnar mun mæla fyrir málinu á Alþingi.
Kristrún Frostadóttir þingmaður Samfylkingarinnar mun mæla fyrir málinu á Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um samstöðuaðgerðir til að verja tekjulægri hópa, ungt fólk og barnafjölskyldur fyrir áhrifum verðbólgunnar, draga úr greiðslubyrði vegna húsnæðiskostnaðar og sporna gegn þenslu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokknum en þar segir að Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, muni mæla fyrir málinu á Alþingi á næstu dögum.

Í fyrsta lagi verður lagt til að lögfest verði leigubremsa að danskri fyrirmynd með takmörkun á hækkun leigufjárhæðar. Í öðru lagi að vaxtabótakerfinu verði breytt til að styðja við lágtekju- og millitekjuheimili.

Í þriðja lagi að barnabótakerfið verði styrkt og skerðingarmörk hækkuð og í fjórða lagi að ráðist verði í aðgerðir á tekjuhlið ríkisfjármálanna, girt verði fyrir að launatekjur séu ranglega taldar fram sem fjármagnstekjur og innleiddir verði tímabundnir hvalrekaskattar.

Verkefni stjórnmálanna tvíþætt

„Verkefni stjórnmálanna í núverandi verðbólguumhverfi er tvíþætt; annars vegar að halda aftur af verðbólgu og hins vegar að verja viðkvæma hópa fyrir verðbólgu og vaxtahækkunum. Samstöðuaðgerðirnar sem við leggjum til snúast um hvort tveggja,“ er haft eftir Kristrúnu Frostadóttur, fyrsta flutningsmanni tillögunnar.

Þá segir í tilkynningunni að til að freista þess að ná víðtækri samstöðu um málið á Alþingi eru lagðar til tímabundnar skattabreytingar og mælt fyrir um að tekjurnar af þeim verði eyrnamerktar stuðningsaðgerðum fyrir heimilin.

„Engu að síður er ljóst að styrkja þarf tekjuhlið ríkisins til langs tíma og þar mun Samfylkingin sem fyrr tala fyrir því að jöfnunarhlutverk skattkerfisins verði eflt.“

Ítarlega er greint frá aðgerðunum fjórum í áðurnefndri þingsályktunartillögu.

mbl.is