Andlát: Sigríður Th. Erlendsdóttir sagnfræðingur

Sigríður Theodóra Erlendsdóttir.
Sigríður Theodóra Erlendsdóttir. Ljósmynd/Sigurður Jökull

Sigríður Theodóra Erlendsdóttir sagnfræðingur er látin, 92 ára að aldri.

Sigríður fæddist í Reykjavík hinn 16. mars árið 1930, dóttir hjónanna Jóhönnu Vigdísar Sæmundsdóttur, húsmóður, og Erlends Ólafssonar, sjómanns. Hún ólst upp á Barónsstíg ásamt systrum sínum, Guðríði Ólafíu ritara og Guðrúnu hæstaréttardómara, en Ólafur, tvíburabróðir Guðrúnar, lést á barnsaldri.

Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1949 og lagði stund á háskólanám í ensku og frönsku. 1953 gekk hún að eiga Hjalta Geir Kristjánsson, húsgagnaarkitekt og framkvæmdastjóra Kristjáns Siggeirssonar hf. Þau eignuðust fjögur börn á næstu níu árum, Ragnhildi ráðuneytisstjóra, Kristján viðskiptafræðing, Erlend rekstrarhagfræðing og Jóhönnu Vigdísi fjölmiðlafræðing og fréttamann. Um það leyti reistu þau hjónin sér glæsilegt hús við Bergstaðastræti 70, sem jafnan er talið með merkari 20. aldar byggingum í Reykjavík. Hún bjó þar til dauðadags en Hjalti Geir lést fyrir tæpum tveimur árum.

Sigríður hóf rannsóknir í kvennasögu upp úr 1970, þá rúmlega fertug að aldri, og lauk BA-prófi í sagnfræði árið 1976. Hún lauk svo kandídatsnámi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1981 með ítarlegri frumrannsókn á atvinnuþátttöku reykvískra kvenna á árunum 1890-1914. Árið 1982 varð hún fyrst til að kenna sérstök námskeið í kvennasögu í sagnfræði við HÍ þar sem hún var stundakennari þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 1999.

Sigríður var brautryðjandi í rannsóknum á sögu kvenna og lagði með kennslu sinni og rannsóknum grunn að kvennasögu sem fræðigrein hér á landi. Hún sat m.a. í stjórn Kvennasögusafnsins, Minja og sögu og Styrktarsjóðs Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Hún skrifaði bókina Veröld sem ég vil, sem kom út 1993 og er saga Kvenréttindafélags Íslands frá stofnun 1907 til 1992.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »