Freyja svarar leikstjóra Sem á himni

Freyja Haraldsdóttir.
Freyja Haraldsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Freyja Haraldsdóttir segir að yfirlýsing Unnar Aspar Stefánsdóttur, leikstjóra sýningarinnar Sem á himni, beri vitni um að hvorki hún né aðstandendur sýningarinnar ætli að gefa röddum fatlaðs fólks um viðfangsefni fötlunar í sýningunni vægi og pláss né biðjast afsökunar.

Þá segist Freyja jafnframt trúa því að Unni sé annt um stöðu fatlaðs fólks, en Unnur er móðir fatlaðs barns.

Aðstandendur sýninginarinnar hafa verið gagnrýndir fyrir að skipa ófatlaðan leikara í hlutverk fatlaðs drengs sem og að ýta undir neikvæðar staðalímyndir um fatlað fólk almennt.

Fellur í sama pitt og aðrir

Unnur sagði í gær að málefni fatlaðra standi henni mjög nærri. Hún hafi viljað sýna raunveruleika þeirra sem glíma við fötlun í sinni tærustu mynd í sýningunni og hvorki fegra né milda hann. Í einu atriði pissar Doddi, fatlaði drengurinn í sýningunni, á sig.

„Í staðin fellur Unnur í sama pitt og svo margir aðrir: að láta þetta snúast um tilfinningar ófatlaðs fólks - og hennar eigin. Að able-splaina, fyrir okkur sem erum fötluð og öllu samfélaginu, hvaða merkingu fatlaði karakterinn hefur og af hverju hann er mikilvægur fyrir hana - og ófatlað fólk. Þegar það skiptir í raun litlu máli enda þarf hún ekki að lifa með afleiðingunum á eigin skinni,“ skrifar Freyja meðal annars á Facebook.


Freyja segir misskilning að foreldrar fatlaðra barna viti upp á hár hvað fatlað fólk gengur í gegnum.

„Foreldrar eru vissulega á fremsta bekk í lífi fatlaðra barna sinna. Þau hrærast í hversdeginum með þeim, verða vitni af sigrunum og óréttlætinu, og þurfa jafnframt að taka við tilfinningunum sem barnið er að upplifa og hjálpa þeim að vinna með þær. Það breytir samt ekki því að foreldrar okkar verða ekki fyrir beinum ableisma þó hann slettist á þau í gegnum okkur.“

Freyja segir jafnframt að sögur um fatlað fólk og persónusköpun þeirra verði aldrei almennileg nema fatlað fólk leikur sjálft og leikstýrir slíkum sýningum.

„Ég vona að aðstandendur þessarar sýningar muni amk. einn daginn hrökkva úr vörn, axla ábyrgð og endurtaka ekki þessa langþreyttu birtingarmyndir fötlunar og sleppi takinu á valdinu yfir okkar sögum.“

mbl.is