Veiðimaðurinn farinn heim til Spánar

Maðurinn sem slasaðist er reyndur veiðimaður.
Maðurinn sem slasaðist er reyndur veiðimaður. mbl.is/Einar Falur

Spænski veiðimaðurinn sem fékk raflost eftir að hafa rekið veiðistöng sína í háspennulínu í Eystri-Rangá í byrjun mánaðarins er farinn heim til Spánar.

Að sögn Gunnars Guðjónssonar, yfirleiðsögumanns í Eystri-Rangá, fór hann til síns heima nokkrum dögum eftir slysið. Veiðimaðurinn, sem er á sextugsaldri, brenndist á fótum og á kvið. Spurður segist Gunnar telja að hann sé enn á spítala.

Biðja menn að passa sig

Maðurinn var hluti af 14 manna hópi Spánverja sem var að veiða í ánni. Með hon­um á svæðinu þar sem hann slasaðist voru þrír aðrir, ásamt leiðsögu­manni. 

„Þetta er mjög óvenjulegt slys en auðvitað pössum við upp á það og ítrekum við þá sem eru með svona verkfæri að passa sig,“ bætir Gunnar við, spurður hvort umsjónarmenn árinnar leggi meiri áherslu á það en áður að veiðimenn fari varlega. Um­rædd­ur maður hélt á veiðistöng af gerðinni Telescope, sem geta verið allt að tíu metra lang­ar.

Starfsmaður RARIK kannaði aðstæður

Gunnar nefnir að starfsmaður RARIK hafi komið á staðinn eftir slysið til að kanna aðstæður og hann hafi ekkert séð athugavert. Allar merkingar á staurum hafi verið til staðar.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að rannsókn á málinu sé lokið. Rætt hafi verið við manninn, ásamt fólki sem var á staðnum þegar slysið varð. Sveinn Kristján kveðst ekki hafa upplýsingar um líðan mannsins.

mbl.is