Allir sakborningar með dóm að baki

Karlmaðurinn sem er í gæsluvarðhaldi hafði verið gestkomandi á Ólafsfirði …
Karlmaðurinn sem er í gæsluvarðhaldi hafði verið gestkomandi á Ólafsfirði og þangað kominn til að aðstoða eiginkonu þess látna, sem er vinkona hans. mbl.is/Sigurður Bogi

Karlmaður sem var úrskurðaður í gæsluvarðhald af Héraðsdómi Norðurlands eystra á Akureyri í gær og er með stöðu sakbornings vegna manndráps á Ólafsfirði í aðfaranótt mánudagsins hlaut eins árs fangelsisdóm árið 2020, meðal annars fyrir tvær líkamsárásir.

Sá látni hlaut fangelsisdóm fyrir stunguárás fyrir hátt í tuttugu árum, að því er Vísir greinir frá.

Karlmaðurinn sem er í gæsluvarðhaldi hafði verið gestkomandi á Ólafsfirði og þangað kominn til að aðstoða eiginkonu þess látna, sem er vinkona hans.

Barði mann í höfuðið

Hlaut hann áðurnefndan dóm árið 2020 fyrir tvær líkamsárásir, fíkniefnabrot, lyfja- og vopnalagabrot. Barði hann meðal annars mann í höfuðið með hamri.

Sá látni hafði einnig hlotið fjölda refsidóma. Þá var hann sakfelldur fyrir að stinga mann með hníf í höndina fyrir hátt í tuttugu árum. Rauf hann skilorð með þeirri háttsemi og var hann dæmdur í kjölfarið í tveggja ára fangelsi.

Vinkona eiginkonu þess látna hefur hlotið vægari dóma, meðal annars fyrir vörslu og smygl á fíkniefnum, ölvunar-, fíkniefna- og hraðakstur og þjófnað.

mbl.is