Sáttaviðræður Alvogen-máls í strand

Halldór Kristmannsson segir fjölda klukkustunda hafa farið í að ræða …
Halldór Kristmannsson segir fjölda klukkustunda hafa farið í að ræða ágreiningsefni og mögulegar lausnir frá því í júní, án þess að málsaðilar hafi náð saman. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef ekki lagt fram skaðabótakröfu gegn stefnanda [Alvogen í Bandaríkjunum] eða Róberti Wessman, eða lagt fram aðrar formlegar fjárhagskröfur gegn stefnanda, og tekið þátt í sáttaviðræðum af heilum hug,“ segir Halldór Kristmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá lyfjafyrirtækjunum Alvogen og Alvotech, í samtali við mbl.is. Fjölmiðlar hafa fjallað nokkuð um viðsjár milli hans og Róberts Wessmans, stjórnarformanns systurfyrirtækjanna, frá því snemma árs í fyrra.

Hvatti Halldór stjórnir fyrirtækjanna á sínum tíma bréflega til að fara ofan í saumana á starfsháttum Róberts og greindi þar meðal annars frá líkamsárásum af hans hendi á fyrirtækjaviðburðum, líflátshótunum gegn fyrrverandi stjórnendum auk rógsherferða í garð meintra óvildarmanna Róberts, víða um þjóðfélagið.

Sakaði Róbert um ósæmilega hegðun

Halldór hefur einnig sagt að hann hafi veitt upplýsingar um önnur mál sem séu varin trúnaði og vilji ekki tjá sig um. Þá hefur hann greint frá því í yfirlýsingum til fjölmiðla að Alvogen í Bandaríkjunum hafi gert sátt við annan uppljóstrara innan fyrirtækisins, og mun það hafa verið gert fyrir tilstuðlan tryggingafyrirtækis Alvogen í Bandaríkjunum. Viðkomandi var framkvæmdastjóri gæðamála Alvogen, að sögn Halldórs, og lagði fram háa fjárkröfu í lok árs 2019. Hún sakaði Róbert meðal annars um ósæmilega hegðun, að sögn Halldórs.

Framangreindum sáttaviðræðum, sem staðið hafa frá því í júní fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, var formlega slitið fyrir hádegi í dag, miðvikudag, fyrir héraðsdómi og aðalmeðferð í málinu því fram undan. Hefst hún 24. nóvember. Sáttaviðræður eru sagðar hafa verið að ósk lögmanns Alvogen, Evu Bryndísar Helgadóttur. Árni Harðarson, aðstoðarforstjóri Alvogen, og Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri Alvotech, munu hafa tekið virkan þátt í sáttaþinghöldum með dómara í héraðsdómi undanfarna fjóra mánuði.

„Ég hef tekið þátt í sáttaumleitunum af heilum hug og frá upphafi viljað sætta málið. Mér þykir miður að fyrirtækið hafi ákveðið að fara með málið í fjölmiðla og á borð dómstóla á síðasta ári, í stað þess að leysa málið innanhúss,“ heldur Halldór áfram.

„Sjö eða átta lögmannsstofur og lögmenn hafa komið að deilum okkar Róberts hingað til, White & Case, Landslög og þaðan Jóhannes Karl Sveinsson, BBA legal og Bjarki Diego, Bois Chiller Flesner í London sem unnið hefur fyrir níðinginn Harvey Weinstein, Pallas Partners í London eftir að Bois Chiller lagði upp laupana í Bretlandi, LMG lögmenn og Eva Bryndís, lögmaður Alvogen, Lex lögmannsstofa og loks Ian Bagshaw, fyrrverandi lögmaður White & Case sem einnig vinnur fyrir hluthafa Alvogen,“ telur hann upp af málarekstri. 

Með traustan lögmann

Kveður hann fjölda klukkustunda hafa farið í að ræða ágreiningsefni og mögulegar lausnir, án þess að málsaðilar hafi náð saman. Fjölmargir erlendir og íslenskir lögmenn eru sagðir hafa tekið þátt í sáttaviðræðum með einum eða öðrum hætti. Halldór segist frá upphafi hafa verið með traustan og góðan lögmann, Guðmund Óla Björgvinsson, sem hafi verið sér við hlið í fyrrgreindum viðræðum.

Þegar bréf voru send á stjórnir fyrirtækjanna segist Halldór hafa leitað til alþjóðlegu lögmannsstofunnar Quinn Emanuel Urguahart & Sullivan og segir hann ekki sé ólíklegt að hann leiti liðsinnis þeirra á nýjan leik.

„Ég vil gæta þess að halda trúnað um þær viðræður sem áttu sér stað með dómara, sem eyddi dýrmætum tíma sínum og annarra starfsmanna dómsins í fundarhöld síðustu mánuði. En ég get staðfest að þessum viðræðum var slitið í morgun og það var ekki ákvörðun lögmanns Alvogen, sem boðaði til sáttaviðræðna í vor.“

Halldór bendir enn fremur á að um sé að ræða fyrsta mál sinnar tegundar hér á landi, þar sem reyna muni á tiltölulega nýlega löggjöf um vernd uppljóstrara hérlendis.

Skýrslan hvítþvottur

„Það er auðvitað margt sérstakt í þessu máli. Mikið var lagt upp úr því á sínum tíma að vísa í rannsókn alþjóðlegu lögmannsstofunnar White & Case, sem ég hef kosið að kalla hvítþvott. Skýrslan sem á að hafa verið gerð var víst svo dýr og vönduð að lögmaður Alvogen hefur ekki viljað leggja hana fram fyrir dómi. Eins hefur mér verið neitað um afrit af upptökum af sjö klukkustunda skýrslutökum, þar sem fram koma mikilvæg atriði um stjórnhætti Róberts. Svo hefur þessi ágæta lögmannsstofa auðvitað unnið fyrir Róbert og Alvogen í mörg ár. Þannig að ég get út af fyrir sig skilið að ekki sé vilji fyrir því að leggja fram þessa blessuðu skýrslu,“ segir Halldór.

„Því hefur verið haldið fram af lögmanni félagsins að enginn fótur hafi verið fyrir ásökunum mínum og það hafi verið niðurstaða rannsóknar lögmannsstofunnar. Það er beinlínis rangt. Fyrir það fyrsta hafði Róbert þá þegar beðist afsökunar á morðhótunum til fyrrverandi samstarfsmanna þegar þessi orð voru látin falla, auk þess sem þetta var alls ekki niðurstaða stjórnar Alvogen, svo því sé haldið til haga.

Niðurstaðan var einfaldlega sú að málið var skoðað og stjórn félagsins ákvað að lýsa yfir trausti á Róbert, og kaus að aðhafast ekki frekar vegna málsins. Enginn hefur stigið fram fyrir hönd félagsins, eða Róbert sjálfur, og sagt að ásakanir hafi verið ósannar eða ekki lagðar fram í góðri trú. Eðlilega er það ekki hægt, enda allt satt og rétt sem ég hef opinberað í fjölmiðlum,“ heldur Halldór áfram.

„Mér þykir auðvitað miður að sátt hafi ekki náðst. Fyrirtækið vill freista þess að fá staðfest fyrir dómi að það hafi mátt segja mér upp störfum í veikindaleyfi og að ég hafi brotið trúnað, á sama tíma og ég steig fram sem innri uppljóstrari. Það er áhugaverð nálgun. Persónulega tel ég að fyrirtækið hafi valdið mér miklu tjóni með því að opinbera málið í fjölmiðlum og því hafi ekki verið heimilt að segja mér upp störfum. En nú er það dómara að skera úr um þennan ágreining og það kæmi mér ekki á óvart ef dómur í málinu félli fyrir áramót,“ segir Halldór Kristmannsson að lokum.

Athugasemd sem barst mbl.is í dag, 6. október, frá Alvogen eftir að viðtalið birtist:

Alvogen Inc. stendur nú í málaferlum við Halldór Kristmannsson, fyrrverandi starfsmann félagsins, vegna trúnaðarbrota hans gagnvart félaginu. Með því vill fyrirtækið fá staðfest fyrir dómi að því hafi verið heimilt að rifta ráðningarsamningi við hann sökum trúnaðarbrots. 

Halldór fór fram með tilhæfulausar ásakanir á hendur Alvogen og stofnanda þess og krafðist um leið ótilgreindrar fjárhæðar sér til handa í þeirri atburðarrás sem hann setti af stað meðal annars í fjölmiðlum. 

Stjórn Alvogen réði alþjóðlegu lögfræðistofuna White & Case LLP til að fara ítarlega yfir kvartanir Halldórs. Stofan hefur ekki starfað fyrir Róbert Wessman. Einnig var lögfræðistofan Lex ráðgefandi varðandi það sem snýr að íslenskum lögum og vinnulöggjöf.  

Í athugunWhite&CaseLLPákvörtunumstarfsmannsinsfólstmeðalannars aðrýna fjölda gagna í málinu og taka skýrslur af tugum fyrrverandi ognúverandi starfsmannaAlvogen. Öllum vitnum var heitið fullum trúnaði til þess að geta komist til botns í meintum ásökunum.  Af þeim sökum hefur eingöngu stjórn félagsins fengið afhenta skýrsluna. 

Niðurstaðan var afgerandi og hefur Alvogen upplýst fjölmiðla, þar á meðal mbl.is, um niðurstöðuna. 

Viðtalið sem birtist á mbl.is 5. okt. 2022 við Halldór er yfirfullt af rangfærslum og heift sem ekki er ástæða til að eltast við, enda er stutt í að málið fái efnislega meðferð fyrir dómstólum. Það að reka málið í fjölmiðlum sýnir að sáttavilji Halldórs var aldrei einlægur heldur nýttur samstundis til þess að koma eina ferðina enn höggi á sinn gamla vinnuveitanda í fjárhagslegum tilgangi.  

mbl.is