Segir Róbert hafa reynt að koma höggi á Björgólf

Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, og Halldór Kristmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá …
Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, og Halldór Kristmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá félaginu. mbl.is/samsett mynd

Halldór Kristmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Alvogen og Alvotech, segir í greinargerð til héraðsdóms að Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, hafi beitt undirmenn sína þrýstingi til þess að ná sér niður á athafnamönnum í íslensku viðskiptalífi. Sem dæmi um fólk sem Róbert hafi reynt að koma höggi á nefnir Halldór Björgólf Thor Björgólfsson og Andra Sveinsson.

Í greinargerðinni ber Halldór Róbert ýmsum þungum sökum, t.a.m. þeim að Róbert hafi komið því til leiðar að gögnum innan úr Landsbanka og Straumi hafi verið lekið til fjölmiðils sem Róbert eignaðist síðar sjálfur. Þá segir í yfirlýsingu frá Halldóri að greinargerðin innifeli viðkvæmar trúnaðarupplýsingar fyrirtækja sem Halldór mun ekki hafa frumkvæði að því að fjalla um í fjölmiðlum, þar sem þær kunni að skaða viðskiptahagsmuni þeirra. 

Segist hafa lagt fram ítarleg gögn

Í greinargerðinni segir Halldór að Róbert hafi nýtt lykilstjórnendur Alvogen og Alvotech til að koma höggi á meinta óvildarmenn sína, meðal annars með umfangsmiklum leka á trúnaðarupplýsingum er varða bankaleynd.

Halldór segir Róbert hafa beitt undirmenn sína þrýstingi frá árinu 2010, til að koma höggi á hóp athafnamanna í íslensku viðskiptalífi og segist Halldór hafa lagt fram „ítarleg“ gögn því til staðfestingar. 

„Má þar meðal annars nefna: Andra Sveinsson, Birgi Bieltvedt, Birgi Má Ragnarsson, Björgólf Thor Björgólfsson, Björgólf Guðmundsson, Claudio Albrecht fyrrv. forstjóra Actavis, Ernu Kristjánsdóttur og syni hennar Ólaf og Kristján Guðmundssyni, Frank Pitt, Guðmund Kristjánsson, Gunnar Fjalar Helgason, Heiðar Má Guðjónsson, Magnús Þorsteinsson, Matthías Johannessen, Peter Prock, fyrrv. aðstoðarforstjóra Actavis, Ragnar Þóris[s]on og Tómas Áka Gests[s]on. Auk þess má nefna meinta erlenda óvildarmenn Róberts sem höfðu þegið boð í afmælisveislu Björgólfs Thors, þá Ari Salmivuori, fyrrum hluthafa í Landsbankanum, og Georg Tsvetanski kaupsýslumann. Vel á annað hundrað greinar birtust í fjölmiðlum er sköpuðu neikvæða umræðu um fjármál, bankaviðskipti og önnur trúnaðarmál, sem tengdust ofangreindum aðilum,“ segir í yfirlýsingu Halldórs.

Markviss leki, að sögn Halldórs

Halldór segir að gögnum innan úr bankastjórnum Landsbanka Íslands og Straumi banka hafi markvisst verið lekið. Þar má, að Halldórs sögn, meðal annars nefna samskipti bankaráðs við Fjármálaeftirlitið, upplýsingar um lánafyrirgreiðslur meintra óvildarmanna og ýmis önnur samskipti og gögn sem bundin eru bankaleynd og áttu sér stað fyrir fjármálahrunið.  Þá segist Halldór meðal annars hafa lagt fram gögn sem sýna hvernig Róbert fól Árna Harðarsyni aðstoðarforstjóra Alvogen að leka trúnaðarupplýsingum innan úr Landsbanka og Straumi til fjölmiðils, sem hann hafi fjármagnað og síðar eignast. Halldór segir að stór hluti samskiptanna hafi átt sér stað í gegnum tölvupósta fyrirtækisins, en einnig í gegnum netföng með dulnöfnum.

Í janúarmánuði steig Halldór fyrst fram í fjölmiðlum með ásakanir á hendur Róberti. Þá sagði hann Róbert hafa sýnt af sér ósæmilega hegðun. Fyrrnefnda greinargerð segir Halldór hluta af vörn gegn lyfjafyrirtækjunum sem „stefndu honum, láku nafni hans og heilsufarsupplýsingum til fjölmiðla og riftu ráðningarsamningi eftir að hann steig fram sem uppljóstrari,“ segir í yfirlýsingu Halldórs. 

Hann segist „nauðbeygður“ til að verja sig í málinu og hann muni leggja fram nauðsynleg sönnunargögn. 

„Í tilefni af vörn minni fyrir héraðsdómi, vil ég byrja á að svara sérstaklega fullyrðingum um að engar stoðir hafi verið fyrir mínum ábendingum. Yfirlýsingarnar eru augljós markleysa og í besta falli klaufaleg tilraun til „hvítþvotts“, þar sem festa eigi þöggun og meðvirkni gagnvart Róbert í sessi innan fyrirtækjanna,“ segir Halldór.

Segir að nóg hafi verið að vera faðir meints óvildarmanns til að fá á baukinn

Hann segist hafa bent fólki á það að Róbert hafi nýtt undirmenn sína og fjármuni fyrirtækjanna óspart í þeim tilgangi að koma höggi á meinta óvildarmenn. 

„Oft var það nóg að vera faðir meints óvildarmanns eða jafnvel að starfa með föður hans til að fá á baukinn. Í ákveðnum tilvikum reyndist það meira að segja dýrkeypt að hafa þegið boð í afmæli. Skæruhernaður Róberts í gegnum Alvogen og Alvotech, ásamt umtalsverðum fjárfestingum í fjölmiðlum á undanförnum árum, sýna hversu miklu var tjaldað til þegar klekkja átti á meintum óvildarmönnum,“ segir Halldór.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK