Leiðtogar innan ASÍ gegn Ragnari

Nokkrir verkalýðsleiðtogar hafa ákveðið að styðja ekki Ragnar í formannskjöri …
Nokkrir verkalýðsleiðtogar hafa ákveðið að styðja ekki Ragnar í formannskjöri ASÍ. mbl.is/Hari

Fjöldi verkalýðsleiðtoga gagnrýnir Ragnar Þór Ingólfsson og Sólveigu Önnu Jónsdóttur. Telja leiðtogarnir innanbúðarátök innan Alþýðusambands Íslands (ASÍ) einkennast af valdsækni þeirra, að því er kemur fram í aðsendri grein á Vísi.

Ragnar Þór Ingólfsson býður sig fram til forseta ASÍ en hyggst áfram gegna stöðu formanns samninganefndar VR. 

„Sú framganga formanns VR ætti þó að gefa auga leið að það er ekki bæði hægt að leiða kjaraviðræður fyrir hönd VR og koma samtímis fram sem forseti fyrir hönd allra landssambanda ASÍ í viðræðum við stjórnvöld og eftir atvikum atvinnurekendur. Hér verður ekki bæði sleppt og haldið, enda um augljósan hagsmunaárekstur að ræða,“ segir í greininni.

Verkalýðsleiðtogar úr Hafnarfirði og af landsbyggðinni

Þar er hart sótt að Ragnari og segir að hann hafi rakkað ASÍ, starfsfólk þess og kjörna fulltrúa niður og geti því ekki setið í stafni hjá sambandinu eða farið fyrir skrifstofu þess.

„Forseti ASÍ þarf að geta leitt saman ólík sjónarmið og verið trúverðugur talsmaður launafólks gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum, sem og í opinberri umræðu. Við teljum að Ragnar Þór sé ekki fær um að valda þessu hlutverki. Hann kann illa á lýðræðislega umræðu, grípur stöðugt til hótana og gengur á dyr ef hann fær ekki sínu fram,“ segir þar. 

Eftirfarandi verkalýðsleiðtogar undirrituðu yfirlýsinguna:

 • Eyþór Þ. Árnason, formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði
 • Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga
 • Gundega Jaunlinina, varaformaður Verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði
 • Guðmundur Finnbogason, formaður Stéttarfélagsins Samstöðu
 • Halldóra S. Sveinsdóttir, formaður Bárunnar stéttarfélags
 • Hrund Karlsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur
 • Jóhann Sigurðsson, formaður Félags málmiðnaðarmanna, Akureyri
 • Magnús S. Magnússon, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis
 • Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari stjórnar Eflingar-stéttarfélags
 • Trausti Jörundarson, formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar
 • Vignir Smári Maríasson, formaður Verkalýðsfélags Snæfellinga
 • Þórarinn G. Sverrisson, formaður Öldunnar stéttarfélags
mbl.is