Vegir víða lokaðir til morguns

Sums staðar var gripið til þess ráðs að loka vegum …
Sums staðar var gripið til þess ráðs að loka vegum fyrr en ella. Mynd úr safni. Ljósmynd/Landsbjörg

Vegum hefur víða verið lokað á landinu á meðan illviðrið gengur yfir. Helst eru lokanir á Norðausturlandi en einnig hefur verið lokað á suðausturhorninu, alveg frá Markarfljóti og austur að Djúpavogi.

Þó er búið að opna fyrir umferð um Holtavörðuheiði en G. Pétur Matthíasson, forstöðumaður samskiptadeildar Vegagerðarinnar, segir í samtali við mbl.is að líklegt sé lokað verði fyrir umferð á öðrum lokunarsvæðum fram til morguns.

Fyrr lokað vegna ferðamanna

Sums staðar var gripið til þess ráðs að loka vegum fyrr en ella til þess að gefa ferðamönnum ráðrúm til þess að yfirgefa svæðið.

„Það eru svo margir ferðamenn á þessum svæðum að það tekur tíma fyrir þá að koma sér burtu. Þess vegna þurftum við að loka fyrr á Suðurlandinu,“ segir G. Pétur. Til dæmis hafi margir ferðamenn verið staddir við Jökulsárlón.

Hann segir fólk virða lokanir enda séu langflestir póstar Vegagerðarinnar mannaðir björgunarsveitarfólki.

mbl.is