„Ef það er eitthvað kjaftæði þá göngum við út úr ASÍ“

Kolbeinn Agnarsson, formaður Jötuns sjómannafélags.
Kolbeinn Agnarsson, formaður Jötuns sjómannafélags. Samsett mynd

Kolbeinn Agnarsson, formaður Jötuns sjómannafélags, grunar að verkalýðsforingjarnir Ragnar Þór Ingólfsson, Sólveig Anna Jónsdóttir og Vilhjálmur Birgisson hafi verið búin að ákveða fyrir fram að ganga út af þingi ASÍ í dag ásamt því að draga framboð sín til baka.

Hann gefur „ekkert,“ fyrir skýringar Sólveigar Önnu á atvikinu og segist styðja Trausta Jörundarson, mótframbjóðanda Sólveigar þar til hún dró framboð sitt til baka, og Ólöfu Helgu Adolfsdóttur heils hugar.

„Fólkið sem vill eiga ASÍ með húð og hári og ráðskast með það“

„Við sjómannafélagið í Vestmannaeyjum, við ætlum að standa okkur í þessari vinnu hérna hjá ASÍ og ef það er eitthvað kjaftæði þá göngum við út úr ASÍ.“

Kolbeinn segir andrúmsloftið hafa verið þokkalegt þar til Sólveig, Ragnar og Vilhjálmur hafi gert upphlaup undir lok þess.

„Þetta er sama fólk sem vill eiga ASÍ með húð og hári og ráðskast með það. Ef það fær það ekki í gegn þá er allt brjálað. Það er í rauninni bara þannig.“ 

Þremenningarnir njóti ekki trausts

Kristján Þórður Snæ­bjarn­ar­son, for­seti ASÍ, nýtur ennþá trausts Kolbeins sem telur Sólveigu, Ragnar og Vilhjálm hins vegar ekki njóta trausts nokkurs manns á þinginu.

Spurður hvort hann sjái fyrir sér ASÍ án Eflingar og VR segir Kolbeinn erfitt að spá fyrir um hvernig það myndi atvikast þó það yrði sannarlega nýr veruleiki fyrir minni stéttarfélög.

„Ég er búinn að tala um það í nokkrun tíma, fyrir okkur sjómenn í Vestmannaeyjum, sem erum lítið félag, höfum við ekkert átt saman að gera með ASÍ. Það er ekkert nýtt þar,“ segir hann glaður í bragði.

Hann segir sitt félag og önnur sjómannasamtök hafa reynt að ganga heil til verks en ætli nú að hugsa sinn gang. Þau sjái sér ekki fært að standa innan samtakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert