Frestur vegna Hagaskóla framlengdur

Frá framkvæmdum við Hagaskóla.
Frá framkvæmdum við Hagaskóla. mbl.is/Hákon Pálsson

„Við erum búin að framlengja frestinnn til 16. nóvember næstkomandi,“ segir Einar Bergmann Sveinsson, fagstjóri forvarnarsviðs hjá Slökkviliði Reykjavíkur, vegna úrbóta sem ráðast þarf í við bráðabirgðahúsnæði Hagaskóla í Ármúlanum.
 

Fyrri frestur sem eigendur bráðahúsnæðis Hagaskóla í Ármúla höfðu til að ganga frá brunavörnum á fullnægjandi hátt, fyrir tvo árganga nemenda, féll úr gildi í dag. 

„Allir unnið af heilum hug“

Einar segir að helst þurfi að huga að brunavörnum á annarri og þriðju hæð hússins og aðeins á fyrstu hæðinni. „Þeir brugðust mjög vel við ábendingum okkar strax í upphafi og fóru í bráðabirgðalagfæringar og fækkuðu nemendum um nánast helming. Síðan var hætt að nota hluta húsnæðisins þannig að flóttaleiðir úr húsinu væru fullnægjandi miðað við þann fjölda sem er í húsinu í dag. Síðan er ýmislegt sem þarf að græja og gera í framhaldinu, sem er samt ekki nægjanlegt til að loka húsnæðinu," segir Einar.

Nú er aðeins einum árgangi Hagaskóla kennt í Ármúlanum þar …
Nú er aðeins einum árgangi Hagaskóla kennt í Ármúlanum þar til allar brunavarnir verða nægilegar fyrir fleiri nemendur. mbl.is/Árni Sæberg

„Það hafa allir reynt að vinna af heilum hug eins og kostur er til þess að gera málið eins farsælt og hægt er miðað við þessar aðstæður,“ segir Einar og bætir við að við óbreyttar aðstæður verði því áfram aðeins kennt hluta af nemendahópnum eða þar til búið er að bæta úr því sem þarf.

Einn árgangur á hverjum stað

Strax og málið kom upp var ákveðið að tvísetja skólann í Ármúlanum þar sem ekki voru nægjanlegar brunavarnir til að hægt væri að kenna bæði 8. og 9. bekk á sama tíma. Strax var hafist handa til að finna aðra lausn og nú er staðan sú að 9. bekk er kennt í Ármúlanum, en 8. bekkur var fluttur í Korpuskóla. Þrátt fyrir lengri rútuferð á morgnana kemur sú lausn vel út, segir Sigríður Nanna Heimisdóttir, aðstoðarskólastjóri Hagaskóla.

Aðstæður sem eru ekki í okkar valdi

„Við vorum með foreldrafundi í dag hérna uppi í Korpuskóla fyrir foreldra nemenda í 8. bekk í dag og það gekk mjög vel þrátt fyrir vegalengdina," segir hún. „Hérna í Korpuskóla eru nemendur í fullbúnu skólahúsnæði og við getum einbeitt okkur að því að hlúa að nemendum og innra starfinu.“

Sigríður Nanna segir í raun fara líka betur um nemendur í 9. bekk sem enn eru í Ármúlanum eftir fækkunina þar. „Auðvitað viljum við samt vera öll saman og hafa eitt skólasamfélag, þannig að þetta er ekki nein óskastaða. En þetta eru ytri aðstæður sem eru ekki í okkar valdi og við þurfum að gera okkar allra besta. Svo má ekki gleymast að við erum að tala um vinnustað ansi margra barna og fullorðinna og því mikilvægt að hafa jákvæðnina að leiðarljósi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka