Stjórnarkjör getur farið fram þó það vanti helming

Frá upphafi fundarins í morgun.
Frá upphafi fundarins í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kjör í miðstjórn og í embætti forseta Alþýðusambands Íslands getur farið fram þó að helmingur þingfulltrúa sé ekki viðstaddur. Fjarvera fulltrúa frá stéttarfélögunum Eflingu og VR og mögulega einhverjum fleiri félögum innan Starfsgreinasambandsins, kemur því ekki í veg fyrir að lögmætt kjör geti átt sér stað samkvæmt lögum og þingsköpum ASÍ.

Óljóst er hvort eða hversu margir þingfulltrúar frá þessum félögum munu mæta til þingsins í dag eftir uppákomu gærdagsins. Heildarfjöldi þingfulltrúa VR og Eflingar er rétt tæplega helmingur allra þingfullrúa.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Til þess að þingið sé lögmætt þarf helmingur þingfulltrúa, 151 eða fleiri, að vera viðstaddur. Séu færri viðstaddir er þingfundi frestað um hálftíma og gefst þá þingfulltrúum kostur á að kalla til fleiri þingfulltrúa. Hver sem niðurstaðan er að því heldur lögmætur þingfundur áfram að hálftíma liðnum óháð því hvort einn eða  þrjúhundruð þingfulltrúar séu á staðnum.

Kjör í miðstjórn og til forseta sambandsins kallar á einfaldan meirihluta greiddra atkvæða og sé þingfundur lögmætur, sbr. ofangreint, getur það kjör farið fram. 

Ólöf Helga Adolfsdóttir er sem stendur eini frambjóðandinn í forsetaembættið eftir að Ragnar Þór Ingólfsson dró framboð sitt til baka í gær. Þá hættu Sólveig Anna Jóns­dótt­ir, formaður Efl­ing­ar, og Vil­hjálm­ur Birg­is­son, formaður Starfs­greina­sam­bands­ins og Verka­lýðsfé­lags Akra­ness, einnig við fram­boð sín í embætti 2. og 3. vara­for­seta ASÍ.

Mynd frá þingi ASÍ í gær.
Mynd frá þingi ASÍ í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vilhjálmur Birgisson, hélt því fram á Bylgjunni í gær að hann, Sólveig og Ragnar, ásamt fulltrúum félaga þeirra, muni ekki taka þátt í störfum þingsins í dag.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is mun það eitt og sér ekki geta haft þau áhrif að stjórnarkjör geti ekki farið fram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert