„Algjörlega óumdeilanlegt“ að ríkið þurfi að koma sterkar inn

Alexandra hefði sjálf viljað sjá verkefninu framlengt, en segir „algjörlega …
Alexandra hefði sjálf viljað sjá verkefninu framlengt, en segir „algjörlega óumdeilanleg“ að ríkið þurfi að stíga fastar inn í rekstur Strætó. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í skoðun er hjá Reykjavíkurborg að koma aftur af stað næturstrætó eftir að slíkt tilraunaverkefni var slegið af borðinu á vettvangi Strætó. Þetta segir Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata og stjórnarmaður í Strætó. Alexandra segir jafnframt „algjörlega óumdeilanlegt að ríkið þurfi að koma sterkar inn í rekstur almenningssamgangna,“ sérstaklega eftir faraldurinn sem leikið hafi Strætó grátt.

„Það er til mjög alvarlegrar skoðunar“

Greint var frá þeirri ákvörðun stjórnar Strætó að hætta tilraunaverkefni með næturstrætó í gær, en verkefnið hafði verið í gangi frá því í júlí og út september. Meðal annars var vísað til þess að 14 til 16 manns hefðu verið að meðaltali í hverri ferð sem væri of fámennt. Alexandra segir það liggja fyrir að Strætó hafi ekki haft fjármagn til að halda verkefninu áfram. Hún segist sjálf þó hafa viljað sjá þetta halda áfram, en að samkomulag um það hafi ekki náðst.

„Þess vegna ætlar Reykjavík að skoða að halda þessu áfram á leiðum innan borgarinnar. Það er þá bara pólitísk ákvörðun Reykjavíkurborgar sem getur ákveðið svona hluti sjálf á öðrum forsendum en stjórn Strætó, sem getur ekki ákveðið sjálf að úthluta sér fjármunum,“ segir hún í samtali við mbl.is. Fyrirkomulagið yrði líkt og borgin væri að kaupa aukaþjónustu af Strætó. Hún tekur hins vegar fram að ekkert liggi enn fyrir um þetta mál, en að mögulega finnist lausn á því. „Það er til mjög alvarlegrar skoðunar.“

Hjálpar við fráflæðisvandann

Alexandra segir næturstrætó ekki bara ódýrari leið fyrir fólk til að komast heim af skemmtanalífinu. „Þetta er mjög mikilvægt öryggismál. Mér skilst að lögreglan vilji þetta áfram og það er ljóst að leigubílafjöldinn í bænum höndlar ekki álagið á nóttunni um helgar.“ Þá segir hún að næturstrætó hjálpi til við fráflæðisvandann og dragi þar með úr hávaða og vandamálum sem geti komið upp.

Síðan greint var frá niðurstöðu stjórnar Strætó í gær hafa heyrst gagnrýnisraddir þar sem meðal annars er bent á að um stutt tilraunatímabil hafi verið að ræða. Síðustu ferðir hafi verið farnar áður en skemmtistöðum er lokað og þar með hafi starfsfólkið ekki getað notað þessa þjónustu. Spurð hvort Reykjavíkurborg myndi reyna að huga að þessum atriðum ef borgin ákveður að halda áfram með næturstrætóverkefnið á eigin forsendum, segir Alexandra að líklegast myndi fyrirkomulagið til að byrja með vera svipað og áður. Helst komi þó til greina að fækka um leið sem hafi verið mjög illa nýtt.

Ákall um frekari stuðning frá ríkinu

Meðal þeirra sem hafa einnig gagnrýnt ákvörðunina um að leggja niður næturstrætó er Pawel Bartoszek, varaborgarfulltrúi Viðreisnar. Hann vísaði í færslu á Facebook til þess að ríkið væri að niðurgreiða hvert flugsæti til ákveðinna áfangastaða á landsbyggðinni um allt að 50 þúsund krónur. Sagði hann að ef hagsmunir höfuðborgarsvæðisins myndu hljóta sömu athygli frá ríkisvaldinu gæti það alveg eins ákveðið að niðurgreiða almenningssamgöngur.

Alexandra segist taka undir þessi orð Pawels. „Ég held að það sé algjörlega óumdeilanlegt að ríkið þurfi að koma sterkar inn í rekstur almenningssamgangna og ég vona að við munum finna lendingu á því til framtíðar þannig að það verði gert vel.“

Segir hún Strætó hafa komið mjög illa út úr Covid og tapað 1,7 milljörðum miðað við það hvernig reksturinn hefði annars orðið. Segir hún að fulltrúar ríkisvaldsins hafi í upphafi faraldurs talað um að ríkið kæmi inn og styddi fyrirtæki sem yrðu fyrir miklum skakkaföllum. Sérstaklega var talað um að halda strætó gangandi svo fólk kæmist til vinnu.

Sagt að ganga á sjóð sem var fyrir orkuskipti

Niðurstaðan, að sögn Alexöndru, hafi verið 120 milljóna greiðsla frá ríkinu, en fyrirtækinu var annars sagt að ganga á 600 milljóna sjóð sem félagið ætti. Alexandra segir sjóðinn hafa verið hugsaðan til að endurnýja vagna og orkuskipti.  „Við vorum skikkuð til að nota þá fjármuni til að halda fyrirtækinu gangandi í Covid. Svo kláraðist það og milljarður að auki og fyrirtækið hefur ekki náð sér eftir það högg.“

Til viðbótar segir Alexandra að olíuverðshækkanir núna bíti enn fastar þar sem ekki hafi tekist að endurnýja flotann jafnmikið og stefnt hafi verið að. Segir hún ósanngjarnt að sveitarfélög þurfi að koma með meira fjármagn inn til að mæta skakkaföllum sem hafi skrifast á faraldurinn.

„Eina leiðin til að slá á umferðarvandann

Borgarlínuverkefnið er nú í fullum gangi, en við aðstæður sem þessar, þar sem framlag til Strætó virðist ekki duga til, vakna spurningar um hvað gerist þegar borgarlínan bætist við. Spurð hvernig hún sjái það fyrir sér segir Alexandra að hinn kosturinn, þ.e. að bæta ekki almenningssamgöngur til muna, sé einfaldlega miklu dýrari og verri.  

„Mér finnst það mjög skringileg framsetning. Það er alveg ljóst að Betri samgöngur og borgarlína eru eina leiðin til að mæta þörfum framtíðarinnar í borginni þegar fjöldinn eykst. Það er líka ljóst að hún er miklu ódýrari og áhrifaríkari en nokkrar aðrar aðgerðir eins og að breikka vegi, fjölga vegum eða leggja fleiri mislæg gatnamót. Þessar aðgerðir skalast ekki upp eftir því sem okkur fjölgar og það myndi ekki duga og yrði dýrara en borgarlínan. Það að bæta almenningssamgöngur er eina leiðin til að slá á umferðarvandann, mengun og margt annað. En það skilar ekki árangri nema við fjármögnum það, en við fáum þá fjármuni til baka margfalt.“

Næturstrætó verkefninu var slaufað eftir nokkurra mánaða tilraun.
Næturstrætó verkefninu var slaufað eftir nokkurra mánaða tilraun. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina