Sveitarstjórnarstigið „í kröppum dansi við ríkið“

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stærsti einstaki áhættuþátturinn í afkomu Reykjavíkurborgar er áhætta vegna fjárhagslegra samskipta við ríkið, að mati Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Þetta kom fram í máli hans í fyrri umræðu um fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2023 sem fer fram á fundi borgarstjórnar í dag. 

Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar kom fram að áætlað væri að almennur rekstur borgarinnar verði neikvæður um sex milljarða á komandi ári.

Fjármagn ekki fylgt kröfum

Í ræðu sinni á fundinum í dag sagði borgarstjórinn að orkuverð og framleiðsluerfiðleikar í Evrópu hefðu haft neikvæð áhrif á verðþróun á vörum og þjónustu í Reykjavík en aðrir þættir innanlands hefðu þó einnig haft mikil áhrif á fjárhag borgarinnar.

„Hér heima hefur sveitarstjórnarstigið verið í kröppum dansi við ríkið um fjármögnun á verkefnum sveitarfélaga, einkum málaflokki fatlaðsfólks en ríkið hefur jafnt og þétt bætt við kröfum um þjónustu – sem er gott mál, en hefur ekki látið fjármagn fylgja með þeim kröfum,“ segir Dagur.

„Þá er stærsti einstaki áhættuþátturinn í afkomu Reykjavíkurborgar áhætta vegna fjárhagslegra samskipta við ríkið,“ bætti hann við.

Fullkomið ábyrgðarleysi af ríkinu

Hann sagði ljóst að borgin og önnur sveitarfélög yrðu að fylgja þessum málum fast eftir og fá leiðréttingu á þeim.

„Það er fullkomið ábyrgðarleysi af ríkinu að leggja fram fjárlagafrumvarp án þess að bæta sveitarfélögunum upp það sem vantar við fjármögnun þeirra sem hefur gríðarleg og alvarleg áhrif á fjárhag sveitarfélaganna og verkefni um land allt,“ segir Dagur og vitnar í bókun meirihlutaflokkanna við umsögn um frumvarp til fjárlaga.

„Án skilnings frá ríkinu á fjármögnun þeirrar þjónustu sem ríkið sjálft gerir kröfu um þá verða ákveðnir málaflokkar – ekki síst málefni fatlaðs fólks, vanfjármagnaðir.“

Taldi Dagur „stórhuga áætlanir“ borgarinnar er varða uppbyggingu búsetuúrræða og þjónustu við fatlað fólk, á borð við NPA-samninga, í fullkomnu uppnámi ef ekki yrði úr þessum málum bætt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert