Aðgerðir nauðsynlegar vegna rakaskemmda í MS

Menntaskólinn við Sund.
Menntaskólinn við Sund. mbl.is/Árni Sæberg

Ljóst er að aðgerðir eru nauðsynlegar vegna rakaskemmdra innviða í húsnæði Menntaskólans við Sund. Þetta kemur fram í svari Framkvæmdasýslunnar-Ríkiseigna (FSRE) við spurningum mbl.is hvort mygla hafi fundist í húsnæði skólans.

„Aðgerðir munu felast í verklegum framkvæmdum þar sem rakaskemmdir innviðir verða fjarlægðir, mygla hreinsuð út, sé hún til staðar. Að lokum eru innviðir endurbyggðir,“ segir í svari FSRE.

Í sumar kom í ljós að raki hafði myndast á tilteknum stöðum í innviðum skólans þegar FSRE vann þar að reglubundnu viðhaldi. Var því samið við verkfræðistofuna Eflu um gerð fullnaðarúttektar á rakaskemmdum í byggingum skólans.

Sú úttekt stendur nú yfir og býst FSRE við því að niðurstöður hennar liggi fyrir undir lok þessa árs.

Gæti komið til breytinga á fyrirkomulagi kennslu

„Ljóst er á þessum tímapunkti að aðgerðir verða nauðsynlegar. Niðurstaða úttektar munu ráða hversu umfangsmiklar aðgerðir verða,“ segir í svari FSRE. 

Þar segir einnig að komið gæti til breytinga á fyrirkomulagi kennslu á meðan framkvæmdir fara fram. Það ráðist af því hversu umfangsmiklar framkvæmdirnar verða sem þarf að ráðast í.

Helga Sigríður Þórsdóttir, rektor í MS, gat staðfest að raki hafi fundist og hafi þess vegna verið pöntuð úttekt. Hún benti blaðamanni á að beina öllum spurningum til FSRE er hún var spurð um það hvort mygla hafi fundist í húsnæði skólans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert