Ótrúlega mörg atriði sem fóru aflaga

Sigmar Guðmundsson.
Sigmar Guðmundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Samandregið eru ótrúlega mörg atriði sem fóru aflaga,“ segir Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar um niðurstöðu Ríkisenduskoðunar í rannsókn sinni á sölu á hluta Íslandsbanka í vor. 

Hann nefnir sérstaklega að Ríkisendurskoðun efist að nægilega hátt verð hafi fengist fyrir hlutinn sem seldur var, að ekki hafi verið tekið nægilega mikið tillit til orðssporsáhættu og að forsendur verðmyndunarinnar hafi verið óljósar og hafi miðast of mikið við erlenda fjárfesta.

„[Orðsporsáhætta] er gríðarlega mikið atriði þegar til stendur að selja meira í bankanum,“ segir Sigmar og bætir við að samandregið sé atriðin sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við mjög mörg. 

Dekkri skýrsla en von var á

„Mér finnst þessi skýrsla eiginlega mun dekkri en að maður átti von á,“ segir Sigmar.

Hann vill þó að fjölmörg fleiri atriði, sem ekki er að finna í skýrslunni og ekki eru tekin sérstaklega til rannsóknar í henni, verði rannsökuð. 

„Til dæmis aðdragandann að sölunni; Það sem að gerist í ráherranefndinni [um efnahagsmál] þar sem að einn ráðherra varaði við því að fara í sölu með þessu fyrirkomulagi og sá það fyrir að það myndi klúðrast. Eftirleikurinn um að leggja niður bankasýsluna yfir nóttu. Ríkisendurskoðun tekur ekki afstöðu til þess hvort að þetta hafi verið rétti tíminn til að selja eða hvort að rétt fyrirkomulag hafi verið valið. Þetta er auðvitað gríðarlega stórar spurningar verður að fá svar við.“

Vill rannsaka pólitíska aðkomu

Hann segir að rannsóknarnefnd Alþingis hefði haft mikið víðtækara umboð til þess að rannsaka hina pólitísku ábyrgð og ákvarðanatöku. „Þegar verið er að selja eigur almennings fyrir fimmtíu milljarða og það klúðrast svona illa, ætla menn að halda hægt sé að komast hjá því að rannsaka þessa hluti? Auðvitað ekki.“

„Því miður verður líklega ekki traust í samfélaginu næstu misserin til að halda áfram að selja eignarhlut ríkisins í bankanum eins og fyrirhugað var. Það er auðvitað högg fyrir ríkissjóð.“

Sver af sér lekann 

Sigmar á sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og er þannig einn þeirra sem fékk afrit af skýrslunni í gær. Spurður út í leka skýrslunnar til fjölmiðla í gær segir Sigmar hann mjög óheppilegan. 

„Ég skil ekki af hverju verið er að leka efni skýrslunnar því að hún hefði orðið opinber sólarhring síðar,“ segir hann og segist að sjálfsögðu geta svarið af sér lekann. 

„Mér finnst áhugavert að henni virðist hafa verið lekið til þriggja miðla á sama tíma. Það er áhyggjuefni þar sem trúnaður átti að vera um skýrsluna til klukkan sex í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert