Leituðu til lögfræðings fyrr á árinu

Framkvæmdir við Eggertsgötu síðasta föstudag.
Framkvæmdir við Eggertsgötu síðasta föstudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margir íbúar á stúdentagörðum sem mbl.is hefur rætt við eru ósáttir við samskiptin við Félagsstofnun stúdenta í tengslum við framkvæmdir á stúdentagörðum. 

Útlit er fyrir að stúdentarnir verði látnir flytja þegar desemberprófin verða í fullum gangi í Háskóla Íslands. 

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Félagsstofnun stúdenta staðið í ýmsum framkvæmdum og framboð af húsnæði fyrir háskólanema hefur aukist. Aldrei hafa jafn margir fengið leiguhúsnæði hjá FS eins og í haust en þessum umsvifum virðast fylgja vaxtarverkir því stúdentar á Eggertsgötu segja farir sínar ekki sléttar í samskiptum við FS. Viðmælendur mbl.is segja lítið sem ekkert tillit vera tekið til aðstæðna hjá háskólanemum.

Óteljandi sögur af ósáttum stúdentum

Þegar svipuð staða kom upp í fyrra, og snemma á þessu ári, flutti Andreu Diljá Edvinsdóttur tvívegis á stúdentagörðunum. Íbúarnir sem um ræddi voru ekki sáttir við hvernig að flutningunum var staðið og gáfu sig ekki. 

„Við fengum okkar kröfur í gegn en þá höfðum við fengið lögfræðing til liðs við okkar, skrifuðum opið bréf til rektors auk þess að vekja athygli á málinu í fjölmiðlum. Fram að því hafði ekki verið komið til móts við óskir okkar, “ segir Andrea Diljá og tekur fram að samskiptin hafa orðið betri eftir því sem á leið. 

„Ég átti reyndar góð samskipti við framkvæmdastjóra FS en hún virðist ekki vera með þessar framkvæmdir á sinni könnu frá degi til dags. Eftir að hafa rætt við hana þá komst meiri hreyfing á málið en ég er undrandi á því að svipuð vinnubrögð sé nú viðhöfð. FS hefur gert margt til að bæta vinnubrögð og samráð en það virðist enn vanta mikið upp á.“ 

Ófyrirsjáanlegar breytingar í framkvæmdaáætlun urðu þess valdandi að sumir stúdentar þurftu að flytja oftar en sinu sinni. Fengu þau bætur fyrir. Andrea segir að hún hafi fullan skilning á því að FS þurfi að fara í framkvæmdir og viðhald og aðrir stúdentar skilji það eflaust einnig. Tillitsleysi við íbúana hafi hins vegar gert aðgerðirnar óvinsælar. Andreu þykir skjóta skökku við þegar dregin er upp fögur mynd af stúdentagörðunum í auglýsingum frá FS. 

Aðalbygging Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni.
Aðalbygging Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni. mbl.is/Kristinn

„FS auglýsir öruggt húsnæði í auglýsingaherferð á samfélagsmiðlum og hægt sé að njóta námsáranna á stúdentagörðunum. Fólk verður ofboðslega reitt þegar það sér þetta og veit hvernig vinnubrögðin eru. Fólk flytur inn og býst við að fá að búa þar en er gert að flytja vegna þess að ráðist er í framkvæmdir með stuttum fyrirvara. 

Mér heyrist mjög margir vera orðnir rosalega þreyttir á ástandinu enda eru óteljandi sögur af stúdentum sem eru ósáttir við samskiptin við FS. Mörgum leið bara illa eftir flutningana í fyrra vegna þess að það tekur á að þurfa að rífa sig tvisvar upp og flytja þegar fólk er með börn en er einnig í háskólanámi. Þetta er stórkostleg röskun á högum fólks og oft er þetta á miðri önn eða jafnvel í prófum.“ segir Andrea.

Tilkynning barst sex mánuðum eftir fyrri flutninga

Giada Visalli þurfti tvívegis að flytja á stúdentagörðunum ásamt Daníel sambýlismanni sínum og ungum börnum. FS borgaði fyrir flutningana í öðru tilfellinu. 

„Við bjuggum í íbúð hjá FS á Skógarvegi. Okkur var tjáð að framkvæmdir væru fyrirhugaðar en ég gat ekki skilið það sem svo að við myndum þurfa að flytja. Ég taldi að einungis væri verið að vara mig við mögulegum hávaða. Við þurftum á húsnæði að halda og tókum því íbúðina. Í maí árið 2020 eftir barst tölvupóstur þar sem tilkynnt var að framkvæmdir væru að hefjast á svæðinu og við þyrftum að flytja í júlí. Ég fer yfirleitt í heimsókn til heimalandsins Ítalíu í júlí og þá var það úr sögunni en valkostirnir sem ég hafði var að flytja 17. eða 18. júlí.“ 

Visalli segir fyrri flutningana hafa verið óskemmtilega en hafi ekki slegið þau út af laginu. 

„Ég myndi segja að þetta tilfelli hafi verið pirrandi og ekki síst vegna þess að mikil pressa var á okkur að samþykkja íbúðina á Eggertsgötu þar sem við höfðum óskað eftir íbúð á því svæði. Við fluttum á Vetrargarða við Eggertsgötu og í lok árs 2020 fengum við tölvupóst um að við þyrftum að flytja aftur og nú vegna þess að framkvæmdir voru fyrirhugaðar á þessu svæði. Á þetta hafði ekki verið minnst í fyrri flutningum og tilkynningin kemur sex mánuðum síðar. Ég reiddist við þetta enda eru flutningar töluvert mál þegar maður er með tvö börn. Ég á ekki fjölskyldu á Íslandi og mágur minn og hans fjölskylda  í raun þau sem voru í aðstöðu til að aðstoða,“ segir Visalli en þau búa ekki lengur á stúdentagörðum.

Allt gert til að koma til móts við óskir íbúa

Mbl.is hafði samband við Félagsstofnun stúdenta vegna málsins og leitaði viðbragða vegna þessarar óánægju sem fjölmiðlinum hefur borist. Í svari frá þjónustustjóra hjá FS vegna stúdentagarða kemur fram að FS geti vitaskuld ekki tjáð sig um einstök mál. En á almennum nótum bendir FS beri að viðhalda húsnæði sem sé í eigu þess en starfsfólk FS geri sér grein fyrir að streituvaldandi geti verið að búa við framkvæmdasvæði. 

„Við áttum okkur á því að það getur verið streituvaldandi að búa við framkvæmdir eða á framkvæmdarsvæði, en á Stúdentagörðum, líkt og annars staðar, lenda því miður alltaf einhverjir í því að búa við slíkt. Við getum ekki sett framkvæmdir, hvort sem um er að ræða nýframkvæmdir eða viðhaldsframkvæmdir á bið, en reynum eftir fremsta megni að lágmarka rask fyrir íbúa okkar, t.a.m. flutninga á milli húsa á meðan á framkvæmdum stendur.

FS ber sem eiganda húsnæðis að viðhalda því. Um það má m.a. vísa til 19. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Í 19. gr. þeirra segir að leigusali annist viðhald hins leigða, innan húss sem utan. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að leigusali skuli jafnan halda hinu leigða húsnæði í leiguhæfu ástandi. Samkvæmt 21. gr. laganna skal leigusali láta vinna fljótt og vel alla viðgerðar- og viðhaldsvinnu þannig að sem minnst röskun valdi fyrir leigjanda. FS hefur ávallt lagt áherslu á það í viðhaldi fasteigna sinna.“

Varðandi fyrirvara og tilkynningar í tengslum við framkvæmdir segir í svari FS að reynt sé að tilkynna um slíkt með eins góðum fyrirvara og unnt er. 

„Framkvæmdir eru alltaf tilkynntar með eins góðum fyrirvara og kostur er á, þær framkvæmdir sem nú eru að hefjast voru kynntar íbúum með tölvupósti í júlí sl,. það er með fimm mánaða fyrirvara. Íbúar voru upplýstir um að vegna eðlis framkvæmdanna þyrftu þau að flytja í aðra íbúð á Stúdentagörðum þegar að þeim kæmi. Með þessu móti gat FS tryggt öllum íbúum sem vildu, áframhaldandi búsetu á Stúdentagörðum í sambærilegri íbúð. Ef sá kostur hugnaðist ekki, hefðu íbúar tíma til að leita annarra úrræða.

Félagsstofnun stúdenta er óhagnaðardrifin sjálfseignarstofnun og í þeim tilfellum sem íbúar óska eftir stærra húsnæði, t.d. með fleiri herbergjum, greiða þeir uppsett leiguverð fyrir það húsnæði. FS telur sig hafa gert allt sem í valdi FS stendur til að koma til móts við óskir íbúa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert