Að drepa þær væri auðvelda leiðin út

Rithöfundurinn Auður Ava Ólafsdóttir segir mikilvægt að varpa fram spurningum um hvernig við lifum fram að hinni yfirvofandi katastrófu, heimsendi af völdum hamfarahlýnunar. Í nýjasta verki hennar Eden vofir loftslagsváin yfir en þó er hið daglega líf sögupersónanna í forgrunni. 

„Þrátt fyrir allt þá höldum við áfram að eiga börn og verðum ástfangin. Ég sá svolítið fyrir mér þessa gullfallegu mynd La vita è bella. Í lokin þegar er verið að leiða föðurinn til aftöku leikur hann trúð fyrir barnið sitt,“ segir Auður. Þrátt fyrir að hann viti hver sín örlög verði reyni hann að hugga barnið.

Auður segist vinna með þessa hugmynd um að við höldum áfram að hugga þrátt fyrir að mikil ógn steðji að í skáldsögunni Eden

Söguhetja verksins er málvísindakona nokkur sem flytur út á land og fer að kenna hópi flóttamanna íslensku. Hún kynnist meðal annars unglingsstrák og milli þeirra skapast að sögn Auðar mjög sérstakt samband. 

„Og hugmyndin var svolítið sú að ef þú tekur á móti trámatíseruðu barni úr stríði þá ferðu ekki að ræða við það um súrnun sjávar. Þú tekur utan um það og segir: „Þetta verður allt í lagi, hafðu ekki áhyggjur“.“

Hvernig lifum við af?

Auður segir að sér hafi alltaf þótt það hvernig við lifum af „miklu mikilvægari, erfiðari og flóknari“ heldur en það hvernig við deyjum.

„Ég drep ekki mínar persónur. Mér finnst það kannski svolítið auðvelda leiðin út. Það er miklu flóknara hvernig við lifum lífinu, hvernig við lifum af og hvað við gerum þangað til. Hvernig við reynum hvert og eitt okkar að búa okkur til okkar litla Eden.“

Auður var gestur Ragnheiðar Birgisdóttur í Dagmálum og sagði þar frá skáldsögunni Eden og þeim þemum sem þar koma fyrir. 

mbl.is