Andlit birtist óvænt á norðurljósamynd

Umrædd ljósmynd Sigurðar.
Umrædd ljósmynd Sigurðar. Ljósmynd/Sigurður Ó. Lárusson

„Þetta er með ólíkindum,“ segir Sigurður Ó. Lárusson sem býr í Burstabrekku í landi Haga á Suðurlandi.

Hann stóðst ekki mátið síðastliðið laugardagskvöld þegar norðurljósin voru í algleymingi og tók myndir af þeim á símann sinn.

Hann var að labba upp brekku við húsið á leið úr bílskúrnum um tíuleytið þegar hann horfði til himins og varð hugfanginn af ljósadýrðinni. Það sem hann áttaði sig ekki á fyrr en hann hafði sent dætrum sínum myndirnar var að á einni þeirra mátti greinilega sjá andlit.

„Þetta er ótrúlegt. Ég fattaði þetta ekki fyrr en dóttir mín sendi mér til baka og strikaði undir myndina,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.

Ljósmyndin umrædda í heild sinni.
Ljósmyndin umrædda í heild sinni. Ljósmynd/Sigurður Ó. Lárusson

Hann segir norðurljósin iðulega sjást vel frá Burstabrekku og dáist að því hvernig þau myndast á himninum yfir Ingólfsfjalli.

Ætlar að fá sér „almennilega myndavél“

Andlitsmyndin fallega hefur orðið til þess að Sigurður, sem starfar hjá Frumherja, hefur lofað sjálfum sér því að kaupa sér „almennilega myndavél“ til að fanga fyrirbærið í stað þess að notast við myndavélina í símanum.

„Þetta er svo brjálæðislegur staður til að horfa á norðurljósin,“ segir hann um Burstabrekku og er að vonum montinn yfir myndinni.

Ein af norðurljósamyndunum sem Sigurður tók.
Ein af norðurljósamyndunum sem Sigurður tók. Ljósmynd/Sigurður Ó. Lárusson
Ljósmynd/Sigurður Ó. Lárusson
mbl.is